145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:14]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég tek undir flest af því sem hann segir. Þegar maður les nefndarálit meiri hlutans og minni hlutans sér maður að það er nú samhljómur. Það er verið að kalla eftir meira fé í vegakerfið og menn eru sammála um að þörf sé á mikilli innviðauppbyggingu, sérstaklega í ljósi stóraukins fjölda ferðamanna til landsins.

Hv. þingmaður kom aðeins inn á það og talaði m.a. um einbreiðu brýrnar og að þar hafi orðið slys á ferðamönnum. Ég velti fyrir mér merkingum á vegum og að fjallað sé um það í nefndarálitinu. Við vitum að það er mikill kostnaður við að bæta vegakerfið þannig að það verði eins öruggt og mögulegt er, en merkingar geta örugglega gert mjög mikið. Mér finnst stundum þegar ég er að keyra á svæðum þar sem ég þekki ekki vel til og er t.d. á T-gatnamótum — ég lenti einu sinni næstum því að keyra út af á svæði þar sem ég þekkti ekki vel til þótt það hafi verið merkt og ég telji mig þokkalega vakandi við stýrið.

Það er ekki lagt til, held ég, neitt sérstakt fjármagn í að auka merkingar en samt lögð áhersla á það. Ég vil vita hvort hv. þingmaður sé sammála mér í því að við ættum að leggja áherslu á að þetta væri eitthvað sem við gætum gert strax. Mér finnst oft merkingar þannig að stafirnir eru litlir, mér finnst ég vera komin allt of nálægt beygjunni. Ég var í Slóveníu í sumar og þar voru merkingarnar risastórar og flottar. Þar er spurning hvort samgöngunefnd hefði átt að skella sér þangað til að skoða hvernig á að merkja.