145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:19]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að Vegagerðin er meðvituð um merkingarmál og í nefndarálitinu segir að sérfræðingar í umferðaröryggismálum hafi komið á fund nefndarinnar og menn séu að vinna í því að breyta skiltum þannig að erlendir ferðamenn skilji þau. Af því ég var að tala um Slóveníu áðan þá er það svæði sem ég var að keyra á í kringum höfuðborgina. Ég er viss um að í því stóra landi eru merkingarnar kannski ekki alls staðar jafn góðar og ég upplifði þarna. Auðvitað gerum við kröfur hér á Íslandi, við viljum vegina eins góða og mögulega er hægt. En stundum verðum við að hafa í huga að þrátt fyrir allt, þrátt fyrir fámennið í þessu stóra landi, er í raun ótrúlegt hve gott vegakerfi við höfum byggt upp. Við þurfum bara að gera betur. Við vitum það.

Þá veltir maður fyrir sér, í ljósi þess að 30% aukning ferðamanna er á milli ára. Þeir fara örugglega langflestir og nýta þjóðvegina, og einna mest í Suðurkjördæmi. Ef þeir fara ekki á bílaleigubílum á eigin vegum þá fara þeir í rútuferðir og annað, þannig að álagið er gríðarlegt. Þá veltir maður fyrir sér: Við þurfum að byggja upp þessa innviði en hvernig eigum við að fjármagna það? Hvar eigum við að fá peningana í þetta? Við í Bjartri framtíð höfum ítrekað bent á að við hefðum viljað nota peningana sem fóru í skuldaniðurfellinguna í annað. Ég veit að ég og hv. þingmaður erum ekki sammála þar, en einhvern veginn þurfum við að fá þessa peninga. Eigum við þá að hækka olíugjaldið eða bensíngjaldið eða eigum við að horfa til innheimtu þannig að ef maður keyrir á ákveðnum vegum þá borgi maður fyrir það? Bent hefur verið á það í þessum ræðustól að eldsneytisgjaldið hafi ekki hækkað samhliða verðlagsþróun. Það kemur fram í nefndarálitinu að þar höfum við orðið af tekjum. Það er þetta sem ég er að velta fyrir mér. Ég spyr hvort (Forseti hringir.) hv. þingmaður hafi einhverjar skoðanir á því. Hvernig fjármögnum við þá uppbyggingu sem við þurfum að fara í?