145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:30]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessar spurningar og vangaveltur. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir. Varðandi viðhald vega voru 6 milljarðar í upphaflegu tillögunni, það hefur verið hækkað upp í 7 milljarða. Vegagerðin segir að það sleppi til, ef ég skildi það rétt. Þeir geta rétt svo haldið í horfinu. En ef vel á að vera og til þess að vinna á þeim vanda sem safnast hefur upp frá því í hruninu — þá voru framlög í þennan málaflokk skert eins og í aðra málaflokka — þarf að koma innspýting og fulltrúar Vegagerðarinnar telja að það séu 11 milljarðar.

Ég held að vel færi á því að samþykkja aukningu upp á 1,5 milljarða, sem minni hlutinn leggur til, á næstu tveimur árum. Það færi vel á því að við mundum setja þá upphæð þarna inn. Varðandi einstakar framkvæmdir sem minni hlutinn nefndi viðurkenni ég að ég þekki þær ekki mjög vel. Þær voru ekki, að mig minnir, á umsagnarlistum. Eitthvað af því var frá Vestfjörðum og þar var skýr forgangsröðun, það voru Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiði næst, og þeir vildu ekki gera mikið til að raska þeirri forgangsröðun.

Ég skil hins vegar vel að framkvæmdir sem eru minni í sniðum, eins og við Látrabjarg og annars staðar, séu mikilvægar og verði mikilvægari eftir því sem líður á og eftir því sem ferðamönnum fjölgar. Ég hef fullan skilning á því en mér þætti vel fara á því að við samþykktum tillöguna um aukna fjármuni í viðhald vega.