145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:54]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Ég tel að það þurfi að hækka markaðar tekjur. Við hefðum þurft að gera það fyrr. Við höfum haft tækifæri til þess vegna þess að eldsneytisverð hefur verið lágt, heimsmarkaðsverð hefur verið mjög lágt og þar af leiðandi hefðum við haft borð fyrir báru og það hefði ekki verið íþyngjandi aðgerð að hækka eldsneytisgjaldið.

Ef við ákvæðum hins vegar eins og staðan er í dag, með þeim mörkuðu tekjum sem við höfum í dag, að setja meira af þeim í samgöngumálin færi minna í eitthvað annað. Ekki gæti ég talað fyrir því að skera niður í heilbrigðiskerfinu eða í framhaldsskólunum eða hvað við erum að tala um. Ég sé kannski ekki neina leið aðra en að hækka álögurnar til þess að fá meiri peninga í kerfið. Eins og ég sagði í ræðu minni þá fóru vissulega 80 milljarðar í skuldaniðurfellingu sem ég hefði viljað sjá nýtta í aðra hluti og þá ekki síst í alla þá innviðauppbyggingu sem við stöndum frammi fyrir og ekki bara í vegakerfinu.

Varðandi merkingar þá er ég mikil áhugamanneskja um það mál. Mér finnst það áhugavert og spennandi og hef skoðað merkingar þegar ég er úti í löndum. Við áttum samtal um það hér, ég og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, að við viljum stundum verða heimóttarleg hér á landi af því að við þekkjum svæðið, erum staðkunnug, og veltum því kannski ekki svo mikið fyrir okkur hvernig merkingarnar fúnkera fyrir þá sem eru utanaðkomandi. Ég villist gjarnan í Reykjavík vegna þess að ég veit ekki að beygjan inn í þetta hverfi leiðir mig líka inn í annað hverfi eða að ég er of sein að koma mér yfir á réttu akreinina. Þetta skiptir allt máli. Svo eru það að sjálfsögðu merkingar sem snúa að öryggismálum, eins og merkingar við einbreiðar brýr.(Forseti hringir.) Það er allt í lagi að ég taki aukahring um Reykjavík, ég er ekkert að kvarta yfir því, en hvað varðar einbreiðu brýrnar getum við ekki látið deigan síga.