145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:01]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hennar í umræðu um samgönguáætlun, sem er heldur rýr í roðinu, satt að segja. Þess vegna er til nokkurs að vinna að reyna að afgreiða hana þó á þessu þingi þótt ekki sé annað. Hv. þingmaður gerði innanlandsflugið að umtalsefni og ég hef áhuga á þeim þætti samgangna sem landsbyggðarþingmaður vegna þess að í mínum huga er innanlandsflugið innviður í almenningssamgöngum. Vandinn er kanski sá að innanlandsflugið skortir skilgreint hlutverk. Við höfum í raun og veru aldrei fjallað faglega um það hvert eigi að vera hlutverk innanlandsflugsins, og það er heldur ekki gert í samgönguáætlun, og hvert skuli stefna með þann samgönguinnvið.

Undanfarin ár höfum við staðið í talsverðu þrefi og vangaveltum um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar og í þeirri umræðu hefur mikið verið talað um mikilvægi innanlandsflugsins fyrir landsbyggðina. En ég hef annars vegar saknað umfjöllunar um öryggisþáttinn og að menn gangi með opnum hug að umræðu um aðra möguleika en Reykjavíkurflugvöll. Þá er svo margt sem ástæða væri til að ræða í því samhengi, eins og lestarsamgöngur.

Ef mönnum er alvara með að taka miðstöð innanlandsflugsins og færa hana t.d. saman við Keflavíkurflugvöll verður ekki undan því vikist að ræða hvernig samskiptin við höfuðborgina eigi að vera. Ekki er hægt að segja A í því samhengi án þess að segja B.

Mig langaði aðeins að heyra sjónarmið þingmannsins varðandi þetta.