145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:04]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni. Ég held við skilgreinum innanlandsflugið oft bara sem okkar lestarsamgöngur. Við notum innanlandsflugið eins og lestarsamgöngur eru notaðar í Danmörku og í öðrum löndum, þó að innanlandsflugið sé vissulega dýrara almennt en lestir.

Þegar menn kvarta yfir því að hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni og í miðborginni, og ég get svo sem alveg skilið það, getur maður bent þeim á að í öllum miðborgum eru risastórar lestarstöðvar og teinar út frá þeim. Mönnum dettur ekki í hug að losa það land, vegna þess að hugmyndin er sú að koma fólki inn í miðborgina.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir að maður hefur enga framtíðarsýn séð varðandi innanlandsflugið. Er hugmyndin sú að það verði í enn meira mæli nýtt sem samgöngukostur á milli landsbyggðar og höfuðborgar eða er stefnan sú að við förum að færa samgöngurnar yfir á betri vegi og stytta vegalengdir? Í öðru orðinu á að fara með flugvöllinn til Keflavíkur og setja upp hraðlest, en í hinu orðinu er verið að tala um að byggja spítalann hjá Vatnsmýrinni. Þá verðum við væntanlega að taka tillit til þess að sjúkraflugið þyrfti að lenda sem næst spítalanum. Ef menn ætla að færa flugvöllinn þyrfti kannski að skoða aðeins hvar hátæknisjúkrahúsið á að vera staðsett.

Það er margt í þessu og mér finnst ekki eins og menn horfi á þetta heildrænt og einhverja áratugi fram í tímann. Ég get ekki séð það. Það sem ég er í raun og vera að hvetja til er að við förum að taka þetta samtal en það er svolítið eins og enginn viti hver ber ábyrgð á þessu. Auðvitað er það ríkisstjórnin hverju sinni, það er á forræði innanríkisráðherra, en mér hefur fundist hálfpartinn að fólk hjá Reykjavíkurborg hafi sínar skoðanir í þessum málum og svo er fólk á svæðum eins og okkar hv. þingmanns eitthvað að reyna að malda í móinn, en enginn veit í raun hvert stefnir. Fara flugbrautirnar bara að hverfa ein af annarri? Og hvað svo?