145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:11]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018. Svo kúnstugt sem það nú er þá erum við hér að ræða áætlun á miðju því tímabili sem undir er. Ég ætla svo sem ekki að dvelja sérstaklega við það. Hæstv. innanríkisráðherra er komin í salinn og kann að hafa hug á að taka þátt í umræðunni. Ef svo er þætti mér áhugavert að heyra í henni varðandi lokaumbúnað málsins og afgreiðslu þess.

Eins og lýðum er ljóst og alþjóð er kunnugt hefur stjórnarandstaðan verið að reyna að ná einhverjum samtölum um það hvernig við ætlum að ljúka þingstörfum. Ég held að öllum sé ljóst að samgönguáætlun hlýtur að vera eitt af því sem við klárum hér á þinginu, a.m.k. væri mikilvægt að gera það með einhverjum þeim hætti að allir gengju tiltölulega sáttir frá borði. Við höfum öll, stjórnarandstaðan, rætt um það hversu seint þessi áætlun er fram komin, hversu illa hún rímar við ríkisfjármálaáætlun og hversu lágar tölurnar eru í byrjun. Síðan hefur verið bætt töluvert í í breytingartillögum meiri hlutans og hefur minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar lagt til ákveðnar breytingar á tillögunni. Má segja að mesti þunginn sé í tveimur þáttum; annars vegar að því er varðar viðhald, þar sem við leggjum til að 1.500 millj. kr. bætist við fyrir árið 2017 og annað eins fyrir árið 2018 og þá með tilvísun í þær ráðleggingar, eða í þá leiðsögn, sem við höfum frá Vegagerðinni.

Hjá henni kemur fram að til þess að halda í við ástandið þurfi 8–9 milljarða á ári, en til þess að geta farið að gera töluvert betur og þar með talið að vinna á þeim svæðum þar sem öryggi er helst ógnað, þyrfti 11 milljarða á ári. Við í minni hlutanum leggjum hér til að niðurstöðutalan á hvoru ári fyrir sig í viðhaldi verði 9,5 milljarðar, en meiri hlutinn hafði þegar lagt til 1 milljarð til viðbótar, þannig að talan hafði hækkað úr 7 milljörðum í 8 milljarða á hvoru ári fyrir sig.

Hinn grundvallarþátturinn, sem er tala sem breytir töluvert miklu, eru styrkir til almenningssamgangna. Ég þarf ekki að halda neinar ræður um hversu mikilvægur sá þáttur er, sérstaklega að því er varðar jafnræði ferðamáta og aukna möguleika almennings til að leggja sitt af mörkum í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að breyta ferðamáta sínum. Það er kannski ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu sem sá möguleiki getur virkilega haft áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna. En auðvitað hefur sú kúvending sem varð á möguleikum til almenningssamgangna á landsbyggðinni á síðasta kjörtímabili breytt mjög miklu um lífsgæði og möguleika fólks úti um land. Mér þætti vænt um að heyra í hæstv. ráðherra um það ef hún blandar sér í umræðuna hér á einhverjum stigum, hvernig og hvort hún sæi það fyrir sér að við gætum sammælst um að þingið yrði einhuga um þessar breytingartillögur til viðbótar við þær sem koma frá meiri hlutanum.

Það liggur algjörlega fyrir að það mun verða verkefni nýs þings og nýrrar ríkisstjórnar, nýs fjármálaráðherra, sem leggur væntanlega fram frumvarp til fjárlaga fljótlega eftir kosningar, að leiða þessa áætlun til lykta. Það er því mitt mat að það mundi styrkja hana verulega ef á bak við hana væri þverpólitískur stuðningur hér undir lok yfirstandandi þings og kjörtímabils.

Mig langar líka að nefna önnur atriði sem ég dvaldi ekki mikið við í fyrstu ræðu minni um þennan málaflokk, en það snýst um samspil heilbrigðiskerfisins og samgöngumála. Gríðarlega mikil áhersla hefur verið lögð á stöðu heilbrigðiskerfisins nú í aðdraganda kosninga og ekki að ófyrirsynju. Gríðarlegur vandi hefur verið víða í heilbrigðiskerfinu, víða er pottur brotinn. Við höfum upplifað verkföll heilbrigðisstétta, erfiðleika við mönnun, mjög mikla erfiðleika varðandi húsnæði Landspítalans, átök um staðsetningu jafnvel í ríkisstjórninni og flókna stöðu að því er varðar fjármögnun heilbrigðisstofnana úti á landi, erfiða stöðu heilsugæslunnar hér í Reykjavík o.s.frv. Til viðbótar við þá umræðu alla hefur komið umræðan um hinn mikla kostnað sem fylgir umferðarslysum. Við horfumst auðvitað í augu við það að með fjölgun erlendra ferðamanna — og þá er ég ekki að tala um hinn eiginlega kostnað sem aldrei verður metinn í krónum og aurum, heldur er ég miklu frekar að tala um það sem mæðir á innviðum okkar vegna þess hve tíð alvarleg umferðarslys eru orðin hér sem hluti af álaginu sem innviðirnir verða fyrir vegna fjölgunar ferðamanna.

Við verðum að sporna gegn þessum slysum og við eigum ekki að sætta okkur við neitt minna en að þau verði engin, að við losnum við þau úr okkur umferðarmenningu, ef svo má að orði komast. Samkvæmt nýjustu útreikningum um kostnað vegna umferðarslysa eru tölurnar vegna banaslysa eða hvers alvarlegs slyss sem felur í sér örkuml fleiri hundruð milljónir króna. Á síðasta ári, á árinu 2015, létust 16 í banaslysum á Íslandi. Þar af voru fimm erlendir ferðamenn, sem gerir nánast 16% af þeim sem létust í umferðinni. Við höfum séð í umræðunni að gríðarlega mikið mæðir á tilteknum svæðum í þessum efnum og þá kannski sérstaklega hér á suðvesturhorninu, eða á þeim svæðum sem eru undir mestu álagi vegna ferðamanna. Það eru Þingvellir, gullni hringurinn o.s.frv. þar sem innviðirnir og umferðarmannvirkin bera varla það álag sem þar er. Að auki erum við að tala um mjög mikil og sterk viðbrögð og áköll frá þeim aðilum sem eiga að annast öryggi, sjúkraflutninga, löggæslu og heilsugæslu o.s.frv. á þessu svæði.

Þetta spilar allt saman og það er því miður þannig að á síðasta ári var ekki ein einasta króna sett í umferðaröryggisáætlun. Ég held að það hljóti að teljast ámælisvert í þessu samhengi öllu saman að við tökum ekki þennan öryggisþátt nægilega föstum tökum, fræðsluþáttinn og samspil við aðra innviði samfélagsins, sem eru þeir þættir sem ég hef verið að telja hér upp og rekja.

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað málaflokkur sem við tæmum ekki með stuttum ræðum á Alþingi, en það voru þessi tvö atriði sem mig langaði sérstaklega að drepa á hér, annars vegar með hvaða hætti við getum afgreitt samgönguáætlun svo þessu þingi sé sómi að, og svo hins vegar vanrækslusyndir að því er varðar umferðaröryggisáætlun og önnur öryggismál almennt, samspil við aðra þætti innviða samfélagsins sem eru undir töluverðu álagi vegna fjölgunar erlendra ferðamanna og eru þættir sem ættu auðvitað að endurspeglast í afgreiðslu málsins hér.