145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:21]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar til að snerta á einu atriði sem kom fram í máli hennar, sem er samspil samgönguáætlunar við þá miklu fjölgun ferðamanna sem við blasir. Það er svolítið athyglisvert að horfa framan í þá staðreynd að í þessari áætlun, sem á að vera til langs tíma, er ekki verið að horfa til þess hvaða þróun á sér stað í fjölgun ferðamanna eða horfa til annarrar áætlunar.

Við vitum að auðvitað mun fjölgun ferðamanna og áframhaldandi vöxtur í komu þeirra til landsins hafa áhrif á umferðaröryggi og möguleika til reksturs ýmissa samgöngumannvirkja. Ég held til dæmis að enginn hafi í einhverri alvöru skoðað hvaða rekstrarmöguleikar eru fyrir hendi núna í ljósi breyttrar stöðu á strandsiglingum sem í sjálfu sér eru mjög eftirsóknarverður samgöngumáti og væri mjög æskilegt að við gætum flutt vörur meira með skipum en við gerum á þjóðvegakerfinu.

Ég var að lesa mjög athyglisverða grein eftir Róbert Guðmundsson, athafnamann á Siglufirði, sem kallar eftir nýjum innanlandsflugvelli í Hvassahrauni og millilandaflugvelli. Þessar raddir eru að verða háværari á landsbyggðinni sem hingað til hafa verið kannski varðmenn óbreytts ástands, viljað hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni o.s.frv. vegna þess að fólk er að átta sig á því að veruleikinn sem við búum við hefur gjörbreyst. Auðvitað spilar þetta stóru rullu í því hvernig við eigum að byggja upp okkar samgöngukerfi til lengri tíma en við erum ekki að því í þessari áætlun.

Mig langar að heyra viðbrögð hv. þingmanns við þessum hugleiðingum mínum.