145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:25]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er auðvitað málið, það kemur á daginn, þegar menn fara að skoða þessa mynd, að hagsmunum mjög margra þéttbýlisstaða á landsbyggðinni væri mjög vel borgið, sérstaklega í viðskiptalegu tilliti, með því að menn væru með samtengingu á milli alþjóðaflugvallar og innanlandsflugvallar þannig að hingað gætu komið ferðamenn sem mundu ekki staldra við á suðvesturhorninu heldur rétt lenda á flugvellinum í Hvassahrauni og fljúga þaðan til Vestmannaeyja, Hafnar, Egilsstaða, Akureyrar, Ísafjarðar. Það mundi draga úr því mikla álagi sem er hér á suðvesturhornið. Það er eftirminnilegt að hafa núna fyrir u.þ.b. tveimur, þremur árum heyrt raddir frá Vestmannaeyjum, þegar ferðamönnum tók að fjölga mjög mikið á Suðurlandi, en á meðan lokað var fyrir siglingar í Landeyjahöfn skiluðu þeir ferðamenn sér ekki út í Eyjar. Þær voru bara í algjöru sambandsleysi og fólk treysti sér ekki til að fara í þriggja, fjögurra tíma siglingu.

Á sama tíma hafa raddir verið uppi um það, bæði á Ísafirði og Höfn í Hornafirði, þar sem menn hafa viljað breyta þeim flugvöllum sem þar eru í millilandaflugvelli eða geta haft þann möguleika að taka við þotum beint. Auðvitað væri eðlilegt að þetta færi fram bara á sama flugvellinum, að það væri nýr flugvöllur með alþjóðaflug og innanlandsflug. Það er það sem við þurfum að gera og við þurfum að hugsa til lengri tíma og vera í stóru myndinni. Til þess eru áætlanir, nú erum við í þessari fjögurra ára samgönguáætlun sem að vísu er tvö ár aftur í tímann og segir auðvitað allt sem segja þarf um fyrirhyggju núverandi stjórnarflokka.