145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:30]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum hér í síðari umr. um þingsályktunartillögu, fjögurra ára samgönguáætlun, framkvæmdaáætlun fyrir árin 2015–2018. Til grundvallar eru nefndarálit meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar og jafnframt álit minni hluta ásamt breytingartillögum beggja. Ég á ekki sæti í hv. umhverfis- og samgöngunefnd en hef, vegna þess að þetta er stórt og mikilvægt mál, fylgst með umræðunni og hún er ekki bara mikilvæg heldur afar fróðleg. Það er ákveðinn samhljómur milli þeirra sem hafa tekið til máls, hvort sem þeir tilheyra meiri hluta eða minni hluta, stjórnarandstöðu eða stjórnarmeirihluta, og jafnframt er samhljómur í áliti meiri og minni hluta hv. nefndar.

Ég vil fyrst taka undir með meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar: Það hefur ekki tekist á undanförnum löggjafarþingum að samþykkja þá fjögurra ára áætlun sem við ræðum og því hefur ekki verið í gildi áætlun eins og lög um samgönguáætlun kveða á um og kemur fram í nefndaráliti meiri hluta, er tiltekið í 2. mgr. 3. gr. þeirra laga. Það er miður þegar við ræðum áætlanir sem eru svo mikilvægar og í samræmi við 12 ára áætlunina, sem er stefnumótandi hluti áætlunar, og þá framkvæmdaáætlun sem við ræðum hér. Sú langtímaáætlun, stefnumótandi áætlun, sem nú er í gildi er ályktun Alþingis til 12 ára sem var samþykkt 19. júní 2012 fyrir árin 2011–2022. Samtímis var samþykkt áætlun fyrir árin 2011–2014, þ.e. fjögurra ára framkvæmdaáætlun. Þetta er sannarlega miður.

Ég tek undir með bæði meiri hluta og minni hluta sem um þetta hafa fjallað og þeim hv. þingmönnum sem hafa komið inn á þetta. Það er býsna alvarlegt að til tveggja ára, frá 2014 og hingað til, hefur ekki verið í gildi samþykkt áætlun sem hefur hlotið viðhlítandi afgreiðslu á Alþingi. Vonandi bætum við hér úr. Það er jafnframt mikilvægt, þegar við ræðum öll okkar grunnkerfi og samþykkjum áætlanir og fjárframlög til þeirra, að kjörnir fulltrúar komi að því.

Hér er jafnframt dregið fram ósamræmi ríkisfjármálaáætlunar. Þó nokkrir hv. þingmenn hafa rætt það. Hún er í gildi fyrir árin 2017–2021 á grundvelli laga um opinber fjármál og þeirrar áætlunar sem við ræðum hér. Þær kallast ekki nákvæmlega á í fjárhæðum og er það bagalegt, en á sama tíma dregur það fram mikilvægi áætlana sem lagðar eru fram á grundvelli fjármálastefnu stjórnvalda eins og hér er um að ræða og má jafnframt setja í samhengi við hversu mikilvægt það er alla jafna og alltaf að setja fram stefnu. Þetta eru ekki háar fjárhæðir í samhengi hlutanna, það hefur komið fram, um 3 milljarðar, en væntanlega verður það lagað þegar ríkisfjármálaáætlun verður uppfærð.

Þá vil ég nefna og taka fram með jákvæðum formerkjum að meira er hér lagt til af fé til samgöngumála frá umræðunni á síðasta þingi í breytingartillögu meiri hluta, eða um 12 milljarðar ef ég les rétt úr tölunum, virðulegi forseti.

Samgöngur eru eðli máls samkvæmt okkur afar mikilvægar eins og svo margir hv. þingmenn hafa komið inn á og er vel reifað í nefndarálitum. Þörf er á fjölbreyttum kostum til að halda uppi eðlilegri umferð vegna byggðar, vegna búsetuskilyrða, flutninga, atvinnu og grunnþjónustu. Þá eru samgöngur einn af lykilþjónustuþáttum sem mynda vörukjarna í ferðaþjónustu, auk gistingar og alls sem því fylgir. Gífurleg fjölgun ferðamanna eykur til muna álagið á allar samgöngur og samgöngukerfið. Flugumferð eykst, skipa- og ferjusiglingar og svo ekki síst álagið á vegi með auknum þunga umferðar. Þessi aukni umferðarþungi kemur síðan ofan á þá uppsöfnuðu viðhalds- og uppbyggingarþörf sem myndast hefur á liðnum árum. Þá sögu þekkjum við vel. Við þurfum hins vegar að takast á við verkefnið og skipuleggja það vel og þess vegna er áætlun eins og við ræðum hér jafnvel enn mikilvægari, að við sjáum fyrir hvernig við vinnum á uppsafnaðri þörf á viðhaldi og lagfæringum og svo frekari fjárfestingum og nýframkvæmdum í samgönguinnviðum.

Það kemur og fram og birtist í umsögnum og máli hv. þingmanna, sem sumir hverjir eiga sæti í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, að áætlun þessi er vanfjármögnuð með tilliti til þessara þarfa. Vonandi getum við á komandi árum með bættum hag hægt og bítandi unnið að því að setja meiri fjármuni í samgönguinnviði.

Þegar við ræðum um samgöngukerfið er komið inn á marga þætti. Á bls. 2 í nefndaráliti minni hluta segir, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn telur mikilvægt að við áætlanagerð í samgöngumálum séu þekking og álit sérfræðinga á sviðinu virt að verðleikum og reynt að forðast tilviljanakenndar ákvarðanir.“

Mér finnst ástæða til að tiltaka þessa setningu því að þetta er mjög fjölþætt og stórt og mikilvægt mál, hefur áhrif á mjög margt í samfélaginu eins og ég kom inn á, hefur áhrif á búsetu og atvinnuuppbyggingu. Það verður því alltaf vandasamt að fullyrða um fjármögnun og hver þörfin er og við hvað á að miða. Ég hef reynt að lesa á milli, bæði þingsályktunartillöguna, sem geymir þessa framkvæmdaáætlun, 12 ára áætlunina og svo nefndarálit. Þar er settur fram þessi venjubundni samanburður við árlega verðmætasköpun sem er verg landsframleiðsla. Svo er það hækkandi í rauntölum og það er hagvöxtur og við þurfum að ná saman um það hvað er raunhæfur mælikvarði og viðmið á það hver þörfin er. Það er, held ég megi fullyrða, uppsöfnuð þörf í viðhaldi vega. Ég held að auðvelt sé að taka undir það. Hér hefur orðið veldisaukning í komu ferðamanna og álagið á vegi aukist. Það hefur jafnframt komið fram hér og í tölum um umferðarslys þannig að auðvitað má draga vísbendingar héðan og þaðan. Ég held að það sé afar mikilvægt í þessu ljósi, þegar við förum yfir áætlanir okkar, framkvæmdaáætlanir, að tekið verði mið af þessu.

Ég sakna þess að geta ekki náð betur utan um þetta á einum stað, öll þessi viðmið og hver fjármögnunarþörfin er. Mér finnst við oft og tíðum vera að kljást um þetta, hér á Alþingi og víðar, á mjög hæpnum forsendum, þegar kemur að tölum í þessum málum.

Okkur hefur orðið tíðrætt um umferðaröryggi. Það er ekki að ófyrirsynju, það er ekki að tilefnislausu. Ef ég hnykki á þeim orðum sem koma fram í nefndaráliti meiri hlutans og snúa að umferðaröryggismálunum þá segir meiri hlutinn, í sérstökum kafla á bls. 4, að hann telji afar jákvætt að á áætlun séu nú framkvæmdir við nokkra af umferðarþyngstu vegum landsins. Brýnt er að þeim verði lokið sem fyrst, segir þar, enda mikið öryggisatriði að aðskilja akstursstefnur á fjölförnum vegum. Í þessu sambandi má nefna framkvæmdir við breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes sem munu hefjast árið 2018 og haldið verður áfram með tvöföldun Reykjanesbrautar, en í fyrsta áfanga þess verks verða framkvæmdir við mislæg gatnamót við Krýsuvíkurveg, en margoft og ítrekað hefur verið farið yfir það hversu mikilvægt það er að hraða og klára framkvæmdir þar. Fjölmargar aðrar framkvæmdir koma fram á áætlun og í áliti meiri hlutans eins og breikkun hringvegar milli Hveragerðis og Selfoss. Ég les svo, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni, virðulegur forseti, að í áliti meiri og minni hluta sé fullur samhljómur og einnig á milli allra hv. þingmanna sem hér hafa talað um að taka vel á þegar kemur að öryggismálum og öryggi á vegum um allt land, ekki bara þar sem umferðarstraumurinn er þyngstur heldur jafnframt víða um land á tengivegum og til byggða.

Jafnframt hefur verið rætt um öryggi þegar kemur að fækkun einbreiðra brúa, ég get tekið undir með öllum hv. þingmönnum sem það hafa rætt, og samgöngubætur við umferðarmannvirki eins og flugstöðina. Þar er nefndur kaflinn frá Fitjum að flugstöð og jarðgangagerð.

Almenningssamgöngur eru okkur eðlilega hugleiknar. Þær eru mikilvægar þegar kemur að sparnaði fjármuna og til þess að draga úr mengun, hægt er að taka undir allt sem snýr að því. Minni hlutinn leggur áherslu á að hraða beri vinnu við að minnka hlut jarðefnaeldsneytis í samgöngum og auka notkun endurnýjanlegra orkugjafa og leggur áherslu á fjölbreytilegan samgöngumáta og telur í þeim efnum mikilvægt að efla almenningssamgöngur, að huga að innviðum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

Ég vil draga þetta fram úr nefndaráliti minni hluta vegna þess að það er kannski betur hnykkt á því þeim megin en í nefndaráliti meiri hluta. Þar er jafnframt komið inn á borgarlínur, hraðvagna og léttlestakerfi þar sem allar slíkar framkvæmdir og áætlanir um slíkt styðja við framtíðarárangur á sviði loftslagsmála og markmið þar að lútandi. Við erum nýbúin að fullgilda Parísarsamkomulagið og erum með yfirlýst markmið um að taka þátt í að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.

Því til viðbótar er mikilvægt að horfa til, og það kemur fram hjá meiri hlutanum, jöfnunar búsetuskilyrða. Ég tek heils hugar undir með meiri hluta nefndarinnar sem undirstrikar mikilvægi þess að Reykjavíkurflugvöllur verði í óbreyttri mynd á núverandi stað og tryggi þannig greiða aðkomu allra landsmanna að höfuðborgarsvæðinu og þeirri opinberu þjónustu sem þar er veitt.

Virðulegi forseti. Ég tók með mér bréf sem var sent til allra þingmanna og er frá aðilum á Austurlandi sem er umhugað um samgöngubætur í sínu samfélagi. Ég ætla að vitna í það bréf, með leyfi forseta, en þar segir:

„Dýrt innanlandsflug er hamlandi fyrir landsbyggðina sem sækir þjónustu og afþreyingu til höfuðborgarinnar. Stór byggðalög og landshlutar líða fyrir dýrt innanlandsflug sem gerir svæðin ósamkeppnishæf um fólk og fyrirtæki. Stendur þannig í vegi fyrir vexti, sem auk þess heldur aftur af aukinni þjónustu og gerir byggðina veikari en ella.“

Ég held að við getum tekið heils hugar undir hvert orð þegar kemur að mikilvægi innanlandsflugs sem almenningssamgöngumáta.

Jafnframt segir:

„Allir landsmenn eiga sjálfsagðan rétt á þeirri þjónustu sem við höfum öll byggt upp í höfuðborg landsins. Þá hlýtur það líka að vera hlutverk hins opinbera að jafna eins og kostur er aðgang að henni. En auk Landspítalans og stærsta hluta sérfræðiþjónustu lækna sem þar er, þá eigum við líka þjóðleikhús, Hörpu, Sinfóníuhljómsveit, Þjóðminjasafn, þjóðarbókhlöðu, framhalds- og háskóla svo eitthvað sé nefnt, svo ekki sé talað um alla stjórnsýslu landsins. Einnig er vert að nefna Keflavíkurflugvöll, sem verið er að verja tugum milljarða í uppbyggingu á og þeir sem næst honum búa komast til flestra staða í heiminum með beinu flugi fyrir álíka og jafnvel mun lægra verð en það kostar að fljúga innan lands.“

Þeir undirritaðir aðilar sem sendu okkur þetta bréf, virðulegi forseti, stofnuðu fésbókarhóp sem þeir kalla Dýrt innanlandsflug, þín upplifun. Ég vil bara ítreka það hér að þetta hangir mjög vel saman við það sem kemur fram í, fullyrði ég, áliti bæði meiri hluta og minni hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar, ég vildi draga það fram hér.

Tíminn líður mjög hratt þegar við ræðum svo stórt mál sem framkvæmdaáætlun samgöngumála er. Fulltrúar sveitarfélaga og landshlutasamtaka komu á fundi nefndarinnar og eru nafngreindir í áliti meiri hlutans. Ég vil hnykkja á nokkrum atriðum. Auk mislægra gatnamóta við Krýsuvíkurveg, sem ég minntist á fyrr í ræðu minni, þá fagna ég þeirri áherslu sem meiri hlutinn leggur, þ.e. að 300 millj. kr. verði varið í að ljúka við framkvæmdir við Kjósarskarðsveg og það á árinu 2017, enda mikilvægt öryggisatriði vegna stóraukins ferðamannastraums um veginn, auk þess sem vegurinn gegnir mikilvægu hlutverki sem varaleið til Reykjavíkur þegar framkvæmdir við tvöföldun Vesturlandsvegar um Kjalarnes hefjast árið 2018.

Ég vil minnast á mikilvægi framkvæmda við Arnarnesveg og lesa upp ályktun bæjarráðs Kópavogs sem var send öllum þingmönnum höfuðborgarsvæðisins. Hún er birt á vef sem umsögn til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Bæjarráð Kópavogs brýnir fyrir yfirvöldum samgöngumála að ljúka við gerð Arnarnesvegar hið fyrsta. Fyrri áfanga verksins er nú að ljúka, en alls er óvíst um lok seinni áfanga sem er tenging við Breiðholtsbraut. Með tilliti til umferðaröryggis og styttingar vegalengda er um brýnustu framkvæmd í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu að ræða. Það er óásættanlegt að samkvæmt fyrirliggjandi samgönguáætlun 2015–2018 sé ekki gert ráð fyrir að ljúka þessari framkvæmd og skorar bæjarráð á Alþingi að setja seinni hluta verks Arnarnesvegar inn á samgönguáætlun.“

Ég get tekið undir hvert orð hér. Síðasta vetur myndaðist öngþveiti þar á helstu umferðartímum og þegar snjóar yfir háveturinn verður ástandið enn verra og mikið álag og umferðarteppa. Ég vildi koma þessu á framfæri og trúi því að þetta verði klárað í þeirri framkvæmdaáætlun sem við horfum til.

Hér er breytingartillaga frá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni sem snýr að útboði við nýja ferju milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar. Ég held að það sé vel að verið sé að leita framtíðarlausna samhliða framkvæmdum í Landeyjahöfn þannig að hægt verði að halda uppi samgöngum á milli Eyja og lands.

Virðulegi forseti. Að síðustu vil ég árétta ósk mína og vona að þessi tillaga nái fram að ganga og verði samþykkt, þessi mikilvæga áætlun, fyrir þinglok.