145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir ræðu hans þar sem eðli máls samkvæmt var komið víða við enda mikið undir þegar verið er að ræða um samgönguáætlun. Mig langar að hrósa hv. þingmanni fyrir það að hann vísaði bæði í nefndarálit meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar og í atriði í áliti minni hluta hv. þingnefndar þar sem honum þótti ástæða til. Mér fannst til eftirbreytni að haga máli sínu svona og fara ekki í einhverja hefðbundnari flokkadrætti hvað varðar meiri hluta og minni hluta stjórnmálaflokkanna hér á þingi og þótti vænt um að heyra m.a. að hann talaði um mikilvægi þess að við mundum ná utan um loftslagsmarkmiðin. Ég er þingmanninum hjartanlega sammála um að þetta sé mikilvægt og tel það reyndar verða okkar stóra hlutverk á 21. öldinni.

Mig langar hér í mínu fyrra andsvari að spyrja hv. þingmann út í mörkuðu tekjurnar þar sem fram kemur í áliti meiri hlutans að þar er bent á að gjaldskrárnar hafa ekki verið hækkaðar í takt við verðlag. Ég vil spyrja hv. þingmann hver sé hans sýn á það. (Forseti hringir.) Telur þingmaðurinn að mörkuðu tekjurnar ættu að renna óskiptar til samgöngumála?