145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:53]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir spurningar hennar. Fyrst vil ég segja að mér fannst vera ákveðinn samhljómur í máli hv. framsögumanna, hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, sem var framsögumaður minnihlutaálits hv. umhverfis- og samgöngunefndar, og framsögumanns meiri hluta og formanns nefndarinnar, hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar. Ég á ekki sæti í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og hef ekki verið með í umræðunni í gegnum allt ferlið við að taka á móti gestum og samhliða að fara yfir umsagnir, eins og er hefðbundið vinnulag í nefndum og í stórum málum. Mér finnst því mikilvægt bæði að taka þátt í umræðunni og hlusta eftir sjónarmiðum og reyna að flýta aðeins fyrir með því að fara í bæði álitin. Mér fannst ýmislegt mjög jákvætt og gott í álitum beggja og fullyrði hér að það er mikill samhljómur og hugur í þingheimi að klára þetta mál.

Varðandi mörkuðu tekjurnar verð ég eiginlega að svara því út frá tilfinningu minni. Mér finnst eðlilegt að þær fylgi verðlagi og ef við erum að vinna með markaðar tekjur, sem mér finnst almennt að við eigum að hafa sem minnst af í kerfi okkar, þá eiga þær að fara þangað sem þeim er beint.