145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýr og greinargóð svör. Ég er sammála hv. þingmanni í því að verið hefur allnokkur samhljómur í umræðunni um samgönguáætlun. Ég hef ekki heyrt nokkurn mótmæla því að nauðsynlegt sé að setja aukna fjármuni inn í samgönguáætlun. Breytingartillögur meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar bera því glöggt vitni og tekur minni hluti nefndarinnar það fram í fyrstu setningunni í nefndaráliti sínu að hann lýsi yfir stuðningi við þær breytingartillögur.

Eins og lesa má á bls. 2 í nefndaráliti minni hlutans kom fram á fundum nefndarinnar að fulltrúar Vegagerðarinnar telja að það þurfi enn meira fjármagn inn í áætlunina en það sem lagt er til af meiri hluta nefndarinnar. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann muni styðja það að farin verði sú leið sem minni hluti nefndarinnar leggur til, þ.e. að bætt verði við enn meiri fjármunum þegar kemur að viðhaldi á vegakerfinu. Svo eru auðvitað lagðar til ýmsar aðrar breytingar hér en mig langar sérstaklega að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart þeim lið sem snýr að viðhaldinu.