145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:57]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka seinna andsvar hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur. Fyrst vil ég segja að ég er svo innilega sammála þeim punkti og tiltók það í ræðu minni að við eigum að láta sérfræðingana um að segja okkur hvað þarf til. Það kemur ágætlega fram í þingsályktunartillögunni sjálfri hverjir bera ábyrgð. Vegagerðin ber vissulega ábyrgð á þáttum í framkvæmdaáætlun sem snúa að umferðaröryggi. Kjarni þess, af því það hefur mikið verið í umræðunni, er auðvitað ástand og viðhald vega. Ef ég hef ekki alveg tapað mér í tölunum þá vantar hér upp á mat Vegagerðarinnar, þetta eru þá eitthvað um 11 milljarðar ef við eigum bara að halda í horfinu. Ef við tökum bæði breytingartillögur meiri hluta og minni hluta er búið að teygja þetta upp í 8–9 milljarða. Ef þar vantar upp á 2 milljarða þá hlýtur það að vera markmið að bæta þessum 2 milljörðum við, ef við ætlum að mæta kröfum og óskum sérfræðinganna. Í nefndarálitum bæði meiri og minni hluta er rík lögð áhersla á umferðaröryggið og jafnframt í máli flestra hv. þingmanna hér. Það snýr að vegakerfinu, ökutækjunum og ekki síst að vegfarendum. Þetta er á ábyrgð Vegagerðarinnar í framkvæmdaáætlun. Við eigum að sjálfsögðu að hlusta á sérfræðingana á því sviði.