145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:06]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka sérstaklega hv. þm. Önnu Margréti Guðjónsdóttur fyrir að draga þetta fram, það jaðrar við að ég hálfskammist mín fyrir að hafa gleymt að minnast á þetta risastóra samgöngumál hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég get tekið undir hvert orð sem hv. þingmaður sagði um þessa mikilvægu framkvæmd. Í ljósi alls þess sem hefur verið í umræðunni um fjölgun ferðamanna og þann ferðamáta sem leggur aukinn þunga á vegakerfið og samgöngurnar inn og út úr höfuðborginni og á höfuðborgarsvæðinu og út á vegi landsins get ég tekið undir hvert orð sem hv. þingmaður sagði. Þetta er líka umhverfismál af því að við vorum að ræða hér um göfug markmið gegn losun gróðurhúsalofttegunda, þetta er risastórt umhverfismál.

Það verður kannski sérstök umræða þegar kemur að því hvernig við ætlum að fjármagna þessa framkvæmd og hvort blanda megi saman beinum framlögum og skattpeningum og einhvers konar einkaframkvæmd. Það verður alltaf hápólitísk umræða, en ég ætla í lokin að ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns fyrir að hafa bætt þessu við mína ræðu. Þó að auðvitað vanti margt upp á í þessu stóra máli, samgöngumáli, þá er Sundabrautin eitt alstærsta samgöngumálið til úrbóta á höfuðborgarsvæðinu.