145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:18]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að ræða við hv. þingmann um það sem hann kom inn á varðandi viðhaldið á þeim fjárfestingum sem þegar hefur verið ráðist í. Það kom fram í máli Vegagerðarinnar fyrir nefndinni að til að viðhalda vegunum án þess að þeir héldu áfram að grotna niður, þeir væru byrjaðir að grotna niður, þá þyrfti að leggja til þess viðhalds bara til að halda í horfinu 8–9 milljarða. Gera má ráð fyrir að menn séu nær efri mörkunum í því frekar en hitt. En ef menn ætluðu hins vegar að fara að taka vegina eitthvað inn í framtíðina, þ.e. uppfæra þá, breikka og endurbæta og bæta öryggi einmitt vegna þessa aukna álags sem hv. þingmaður nefndi, þá þyrftu það að vera um 11 milljarðar árlega. Við sjáum að í ár eru settir 6 milljarðar, samgönguáætlunin gerir ráð fyrir 7 milljörðum á næsta og þarnæsta ári. Meiri hluti nefndarinnar lagði fram tillögu sem við í minni hlutanum styðjum um að þetta fari upp í 8 milljarða en eru þá áfram í neðri mörkunum. Við í minni hlutanum leggjum þess vegna til viðbót við það, þannig að þetta fari upp í 9,5 milljarða svo við getum a.m.k. farið að taka fyrstu skrefin inn í uppfærslu á vegunum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann sem hefur mikla þekkingu á þessum málaflokki: Hversu lengi getur það gengið að vera með undirfjármögnun á viðhaldinu, þ.e. hversu lengi geta menn haldið áfram á þeirri braut að undirfjármagna bara hið almenna viðhald á þessum fjárfestingum? Og hversu miklum kostnaðarauka (Forseti hringir.) eru menn að velta inn í framtíðina sem þetta mun líklega kalla á, þ.e. enn stærri framkvæmdir síðar ef við erum farin að tala um (Forseti hringir.) ónýta vegi en ekki bara vegi sem þarfnast viðhalds?