145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:28]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í þessa umræðu þótt sjaldan sé gaman að ræða jafn mikilvæg mál og samgönguáætlun þegar farið er að kvölda og flestir líklega farnir að horfa á kvöldfréttir, Kastljós eða eitthvað slíkt. Hér hefur margt verið sagt en nauðsynlegt er að fara yfir að mínu viti nokkur atriði. Ég eins og aðrir hlýt að tala um það að sú vanræksla sem hefur átt sér stað frá því ríkisstjórnin tók við völdum hefur orðið til þess, eins og réttilega var sagt áðan, að vísað er inn í framtíðina gríðarlegum fjárhæðum. Þegar hæstv. fjármálaráðherra hefur talað um að það sé betra að borga niður skuldir og það sé mjög nauðsynlegt, og ég held að við getum öll fallist á það, þá hefur forgangsverkefnið eingöngu verið það en ekki að gera hlutina samhliða. Það kostar líka að hafa ekki tekið þá ákvörðun að sinna samgöngukerfinu. Það kostar mikla peninga, það er alveg ljóst og við stöndum frammi fyrir því núna.

Ég tel að það hafi verið afar misráðið að fara þessa leið og gera það eins og hér hefur verið gert. Ég hef líka talað mikið um Vegagerðina, um stöðu Vegagerðarinnar og það sem kallað hefur verið neikvætt bundið eigið fé og hér var verið að nefna, kannski að því leyti að markaðar tekjur hafa ekki skilað sér allar til langs tíma. Svo er það þessi skuld um áramótin og alltaf spurning hvernig menn sjá fyrir sér að leysa úr því máli. Fram kemur í áliti meiri hlutans að það þurfi að gera, en ekki hafa fengist svör við því hvort það verði gert núna. Ég er reyndar ekki búin að lesa yfir lokafjárlögin þannig að ég veit ekki hvort fram kemur tillaga um það þar. En ég mun alla vega leggja það til þegar þau koma til afgreiðslu.

Ég tel að það sé rangt sem kemur fram á bls. 4 í meirihlutaálitinu, þar sem framlög til samgöngumála hafa aldrei verið lægri eftir hrun fjármálakerfisins árið 2008 en árin þar á undan. Það sést ágætlega á yfirliti sem minni hlutinn lagði fram þar sem kemur fram að 2009 og 2010 — 2009 er hærra en 2007, og 2010 er svipað af vergri landsframleiðslu og 2007. Þannig að þetta er kannski ekki alveg rétt með farið.

Auðvitað lyktar þetta af því að það eru að koma kosningar. Allir eru held ég sammála um að aukna fjármuni þurfi í vegamálin en það hefur einhvern veginn ekki gengið fyrr en þá núna að fá inn í þau peninga. Það gekk ekki þegar ráðherrann lagði fram þessa áætlun sína þar sem hún sagði að hún gæti staðið með þessu en treysti sér ekki til að standa með meiru. En núna eins og ég segi, korteri í kosningar, bætist töluvert við sem er af hinu góða að mínu mati, en það lyktar óneitanlega af því að það eru að koma kosningar.

Ég verð að taka undir tillögur hjá minni hlutanum þar sem lagt er til að bætt verði í og ég vona að áður en þetta verður afgreitt náist samkomulag um að taka þær breytingartillögur hér inn í. Það kemur fram í áliti meiri hlutans að þetta sé vanfjármagnað þrátt fyrir þá viðbót sem meiri hlutinn leggur til og minni hlutinn er í rauninni að leggja til viðbót upp á 2,5 milljarða svo þetta hangi í nauðsynlegri viðhaldsþörf. Það er eitt af því sem mér finnst persónulega vera forsenda þess að við getum samþykkt þessa áætlun.

Eitt af því sem lagt er til og tengist kjördæmi mínu er að vegur yfir Öxi fylgi strax á eftir framkvæmdum við Berufjarðarbotn. Þetta hefur verið á áætlun ótrúlega lengi og alltaf einhvern veginn sett aftur fyrir. Ég held að það sé bara kominn tími á þetta verkefni, sem sýnt hefur verið fram á, eins og í sumar, að miklu meiri umferð er þar yfir en yfir þrjá aðra sambærilega vegi til samans. Ég held að það eitt og sér rökstyðji þörfina fyrir þessa framkvæmd. Svo varð slys ekki alls fyrir löngu, eins og einhverjir vita eflaust af, sem styður kannski enn frekar við það að með auknum ferðamannastraumi og aukinni umferð þarna yfir þá þurfi að klára þessa framkvæmd.

Mig langar að leiðrétta hérna eitt í álitinu þar sem verið er að fjalla um jarðgöng. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Við umræðu í nefndinni um jarðgöng og mikilvægi þeirra fyrir tengingu byggðarlaga og stækkun atvinnusvæða á landsbyggðinni var vikið að rannsókn sem unnin var við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands þar sem rannsökuð var staða kynjanna fyrir og eftir opnun Seyðisfjarðarganga …“

Hér er auðvitað átt við Héðinsfjarðargöng og þyrfti líklega að lagfæra þetta í álitinu. Það er staðreynd þegar við höfum stundum verið að fjalla um mikilvægi ganga — þessi göng voru á sínum tíma ekki álitin mjög nauðsynleg en þau hafa skipt gríðarlegu máli hvað varðar atvinnusvæði, byggðina og þróunina sem þar er að verða. Hér var m.a. rætt í dag að allur sá rekstur sem hefur orðið til í framhaldinu gerist í rauninni bara vegna þess að göngin verða að veruleika. Það eitt og sér skiptir miklu máli. Þess vegna held ég að við verðum að standa þétt við bæði Dýrafjarðargöng og Seyðisfjarðargöng. Í rauninni eiga göng alltaf að vera í gangi. Ég held að það sé eitt af því sem er forsenda þess að hér geti byggð haldist um hinar dreifðu byggðir. Bara þar sem ég bý eru fern göng, en okkur vantar ein enn vegna þess að vegurinn sem kallaður hefur verið um Almenninga og í Fljótum, þar er gríðarlega mikið jarðsig og hefur verið til áratuga. Það er í rauninni bara tímaspursmál hvenær sá vegur fer í sjó fram og afar mikilvægt að þau göng komist á kortið, þannig að þau verði í röðinni.

Ég eyddi fyrri tíma mínum fyrst og fremst í það að ræða um flugsamgöngur af því að ég tel þær mikilvægar og lít á þær sem part af almenningssamgöngum, en ég ætla ekki að taka þær fyrir núna heldur legg ég fyrst og fremst áherslu á þá staði sem hafa verið hættulegir og þá vegi sem eru hættulegir, malbikun um Berufjarðarbotn til dæmis, og að klára eigi Dettifossveginn. Þetta eru öryggismál líka ekki síður en að klára hringveginn.

Framkvæmdir við Bárðardalsveginn eru líka nefndar sem hluti af því sem á að fara í. En það er kannski verið að kasta til peningum í langtímaáætluninni, koma mörgum verkum einhvern veginn á koppinn og sýna þau án þess endilega að verið sé að gera tilraun á næstu árum til að klára þau eða setja almennilega fjármuni í þau.

Ég verð auðvitað að fagna því að veita á fjármuni í uppbyggingu Skarðsvegar í Skarðsdal. Og eins og ég sagði áðan, malbikun um Berufjarðarbotninn og Borgarfjarðarveg og fleira sem hér er undir og tilheyrir kjördæmi mínu. Þar hafa auðvitað verið töluverðar framkvæmdir sem hafa skipt samfélagið þar miklu máli.

Eins og hér hefur verið talað um þurfum við að dreifa ferðamönnum með öruggari hætti. Álagið á vegina er ekki síst í því fólgið að þungaflutningarnir hafa færst alfarið upp á land og eru gríðarlega miklir. Það, auk þess að vera með illa farna vegi og mikið af erlendum ferðamönnum sem hafa aldrei nokkurn tímann keyrt á slíkum vegum, eins og landið býður upp á, viðkemur auðvitað öryggismálum sem hafa aðeins verið nefnd og koma fram í áliti meiri hlutans, minnir mig, þar sem fjallað er um öryggismál. Alla vega er kostnaðurinn sem hefur hlotist af því í kringum 48 milljarðar árið 2015 samkvæmt rannsóknarverkefni háskólans og beinn kostnaður heilbrigðiskerfisins vegna umferðarslysa árið 2009 var 930 milljónir á núverandi verðlagi. Þetta allt rökstyður það að ekki hafi verið settir nægjanlegir fjármunir í lágmarkið, þ.e. öryggisþáttinn. Það er algjörlega óásættanlegt og við verðum eiginlega bara að grípa til aðgerða. Nú er kominn október og alveg ljóst að minnsti hlutinn af þeim framkvæmdum sem hér er ætlað að gera á þessu ári nær fram að ganga.