145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:39]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir ágæta yfirferð yfir verkefnaáætlun samgönguáætlunar. Eins og gjarnan er tala landsbyggðarþingmenn fyrst og fremst um sitt kjördæmi. Ég hef sjálf verið í þeirri stöðu. Á síðasta kjörtímabili var ég varaþingmaður í Suðurkjördæmi og þá beinast sjónir sérstaklega að þeim hluta.

Hv. þingmaður talaði um botn Berufjarðar og ég fagna því að loks sjái fyrir endann á því að hringvegurinn um landið verði bundinn slitlagi og að þessi litli en vondi bútur klárist. En við skulum líka viðurkenna að ekki er einungis við Vegagerðina að sakast í þeim efnum, þar hafa verið innbyrðisdeilur á milli landeigenda og það gæti verið efni í aðra ræðu og aðra messu hvort við þurfum að skoða það hversu mikil áhrif það hefur; eignarrétturinn er mjög sterkur en það er býsna oft í vegagerð á Íslandi þar sem eignarrétturinn hindrar framgöngu góðra samgöngumannvirkja.

Ég er ekki búsett í umræddu kjördæmi og þekki ekki mikið til þar en mér hefur borist til eyrna að Breiðdalsheiðin sé mjög oft farartálmi fyrir íbúa á sunnanverðum Austfjörðum og að þar hafi lítið verið mokað og viðhaldi lítið sinnt undanfarna vetur. Það gerir að verkum að ýmsir sem eru að byggja upp atvinnustarfsemi á Austfjörðum búa við skerta samkeppnisstöðu ef við getum orðað það þannig, það er einfaldlega erfitt að byggja upp atvinnustarfsemi vegna þess að Breiðdalsheiðinni er ekki haldið opinni og henni er ekki sinnt í marga mánuði á ári. Um leið og við fögnum endurbótum á (Forseti hringir.) veginum yfir Öxi þá hlýtur þetta að vera umhugsunarefni fyrir þingmann kjördæmisins.