145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:45]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það að flugsamgöngur og samgöngur á vegum landsins ættu að flokkast undir almenningssamgöngur. Hv. þingmaður talar um góð tengsl og flugvöllinn á Egilsstöðum, Vatnsmýrina og Keflavíkurflugvöll. Ég hef verið hlynnt því að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni á meðan ekki hafa fengist viðunandi niðurstöður annars staðar. Ef maður gæti tekið þetta stakt út og væri bara að hugsa um ferðamennskuna þá er ég sammála því að best væri að fljúga á Keflavík og geta flogið þaðan innan lands. En það er bara svo miklu meira undir. Ef léttlestir væru komnar til værum við líka að tala um aðra hluti.

Meðan Landspítalinn er á þeim stað sem hann er og meðan öll opinber þjónusta er meira og minna hér í 101 — stór hluti fólks sem flýgur innan lands er að sækja slíka þjónustu og við þekkjum umræðuna um sjúkraflugið — finnst mér Vatnsmýrarflugvöllurinn eiga rétt á sér. Hvað svo sem kemur út úr könnunum varðandi Hvassahraun eða hvort eitthvað verður gert í Keflavík — Keflavík annar ekki því sem þar er að gerast í dag og getur ekki bætt við sig innanlandsfluginu eins og staðan er núna — þá þarf það að liggja fyrir áður en við lokum flugvellinum í Vatnsmýrinni. Ég skil alveg að Reykjavíkurborg vilji fá þetta dýrmæta land undir íbúðabyggð, ég ætla ekkert að draga úr því.

Í stóra samhenginu horfir þetta svona við mér en ef ég ætti eingöngu að horfa á hlutina út frá ferðaþjónustunni held ég að það sé alveg klárt að Keflavík væri betri kostur. Við búum bara ekki í þeim raunveruleika.