145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum fengið þær fréttir að líklega sé búið að semja um þinglok og við getum farið að vinna að þeim málum sem fyrir liggja. Ég vona að það verði klárað í dag. Við höfum borið gæfu til þess í haust að eiga gott samstarf hér á þinginu um mörg góð mál og það eru mörg góð mál hér sem við þurfum að klára fyrir þinglok. Ég vil tala um mál eins og almannatryggingar, þar sem kjör eldri borgara eru okkur mjög hugleikin. Ég vona að við getum bætt aðeins kjöti á beinin þar og komið fram með frumvarp sem bætir kjör eldri borgara.

Það er alveg klárt að það frumvarp sem þegar liggur fyrir einfaldar eitt og sér lögin og regluverkið mjög mikið og verður mikið til hagsbóta fyrir alla sem þurfa að vinna í kringum það og þá eldri borgara sem hafa hreinlega átt í erfiðleikum með að skilja hvernig útreikningar á kjörum þeirra eru. Ég hef sjálfur kynnt mér það mjög nákvæmlega og þess vegna fagna ég mjög því frumvarpi sem kemur hér fram. Við munum vonandi ljúka því fyrir þinglok.

Ég treysti því að í þessum sal verði samstaða um að koma til móts við eldri borgara á þann hátt sem okkur er sæmandi sem Alþingi og að við getum öll sammælst um það í kosningabaráttunni að kjör þeirra þurfi að batna og sýnum það í verki að við bætum kjör þeirra á næstu dögum og það komi til framkvæmda um áramót. Ég held að það sé málið sem brennur mjög mikið á mjög mörgum í þessu samfélagi, að við sýnum eldra fólki þá virðingu að kjör þess verði bætt og það geti gengið inn í nýtt ár með okkur með gleði í hjarta yfir því að kjörin hafi verið bætt.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna