145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hef verið svolítið hugsi yfir stöðu fólks 50 ára og eldra í þjóðfélaginu, bæði hvað varðar vinnumarkaðinn og stjórnmálin og hvernig litið er á fólk á þessum aldri, hvernig þátttaka þess er í samfélaginu. Mér hefur fundist talað niður til þessa hóps, að hann sé kominn á síðasta snúning og eigi ekki að hafa sig í frammi. Ekki er hægt að segja að fjölmiðlar lyfti þessu fólki upp, hvorki í atvinnulífinu né í stjórnmálum. Þegar fólk missir vinnu á miðjum aldri, getur það reynst mjög erfitt að fóta sig aftur á vinnumarkaði og komast í sambærileg störf eða eiga möguleika á að mennta sig til nýrra starfa til að finna sér vinnu við hæfi.

Ég held að þetta sé verkefni sem verður að vinna með, bæði varðandi aðila vinnumarkaðarins, stjórnmál og ekki síst fjölmiðla, hvernig talað er um fólk sem er orðið 50 plús, eins og það sé komið á grafarbakkann og ekki hægt að kreista neitt meira út úr því af neinu viti, að unga fólkið geti eitt lagt eitthvað til málanna. Þessi reynsla og þekking sem þarna er til staðar, mannauðurinn — þjóðfélag eins og okkar, og auðvitað öll samfélög, á að nýta það til hins ýtrasta.

Við sem erum komin á þennan aldur, 50 plús, eigum að tala hreinskilnislega um þessi mál. Ég veit að oft hefur verið talað um að mikið sé af körlum fimmtíu ára og eldri í valdastöðum en það sést ekki að (Forseti hringir.) margt kvenfólk sé í þeim geira. Ég held að það þurfi að ræða þetta hreinskilnislega og að þetta eigi ekki að vera feimnismál.


Efnisorð er vísa í ræðuna