145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka hér upp mál sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir gerði með eftirminnilegum hætti í gær, þ.e. hina ótrúlegu sögu sem Stundin hefur verið að færa okkur og við fengum fréttir um í gær um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem taka á fimm ára dreng með valdi af íslenskri ömmu sinni, móður og fjölskyldu, og færa hann til Noregs í vistun næstu 13 ár þar sem barnið fær að hitta móður sína tvisvar á ári í tvær klukkustundir, eða fjórar klukkustundir á heilu ári, og amman sem annast hefur barnið í langan tíma fær ekkert að hitta barnið. Ég þekki ekki norsk barnaverndarlög, en harðneskjuleg sýnast mér þau vera og þvílík mannvonska og þvílík refsing. Ég ætla ekki að fara yfir forsögu málsins. Móðirin lenti af lífsins leið en hefur fundið hana aftur.

Ég spyr: Hver er réttur barnsins? Fær drengurinn eitthvað um það að segja hvort hann verði hjá ömmu sinni eða vistaður einhvers staðar í hinum stóra Noregi miðað við það sem ég sagði hér áðan?

Virðulegi forseti. Mér sýnist að í uppsiglingu sé nútíma barnarán framkvæmt af norskum barnaverndaryfirvöldum. Ég get ekki sem ríkisborgari í þessu landi og samlandi þessa fólks látið þetta óátalið og tek þess vegna til máls hér á hinu háa Alþingi. Það má aldrei gerast, virðulegi forseti, að drengurinn verði sendur norskum barnaverndaryfirvöldum. Hvers vegna flyst málið ekki frá Noregi til Íslands þegar fólkið er aftur flutt heim? Það ætlaði að leita sér að betra lífi þar rétt eftir hrun, en mér sýnist málið vera að snúast í algjöra martröð. Þetta má aldrei gerast.

Virðulegi forseti. Ég hef oft komið í þennan ræðustól á 17 ára þingferli mínum. Ég hef hins vegar aldrei fengið áður (Forseti hringir.) sting í hjartað við að ræða mál. Ég fer sorgmæddur úr þessum ræðustól.


Efnisorð er vísa í ræðuna