145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég lýsti því yfir við forseta í gær, og ég held í fyrradag líka, að á meðan við þingmenn sem erum í þessum sal komumst ekki út í kosningabaráttuna eins og hinir sem eru uppi um fjöll og firnindi, þá höldum við í Bjartri framtíð kosningaræður okkur úr þessum stól og á því ætla ég að byrja núna.

Mig langar að tala um Bjarta framtíð og hvaða stjórnmálaafl við erum. Núna er verið að setja fram ýmis kosningapróf, skemmtileg próf, til að hjálpa fólki að ákveða sig. Eitt þeirra er ákveðið graf Félagsvísindastofnunar sem sýnir bersýnilega að Björt framtíð er frjálslyndur og alþjóðlega sinnaður flokkur. Við erum þar efst á blaði og algjörlega á öndverðum meiði við aðra flokka sem eru meira forpokaðir og einangrunarsinnaðir. Við höfum talað fyrir almannahagsmunum umfram sérhagsmuni og það höfum við gert allt frá stofnun flokksins árið 2012. Fyrst vil ég segja að ég fagna því að aðrir taki undir þann málflutning okkar. Núna eru meira að segja að spretta upp heilu flokkarnir sem taka upp þetta stef okkar. Það er ágætt. En nú þegar fólk í þeim flokkum er farið að verða vart um sig af því að fylgi þeirra er að dala og okkar að rísa byrja pillurnar að koma og þá vil ég benda fólki á að skoða hvaða aðilar í þeim flokkum hafa verið að berjast fyrir sérhagsmunum álfyrirtækja, sérhagsmunum útgerðarinnar o.fl. (Forseti hringir.) og skoða svo hverjir eru trúverðugir í þeim málflutningi.