145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Mér heyrist á síðasta ræðumanni að það sé búið að stofna þriðju Samfylkinguna. Það eru allir að keppast um að vera með það sama. (ÖS: Hvað með þá fjórðu?) Ja, hver veit nema hún komi. (Gripið fram í: Ætlar þú að koma þá?) Góður krataflokkur hefur oft verið vinsæll. Ég veit ekki hvenær tekst að stofna hann. (Gripið fram í: Það er góður krati í þér.) Það sem ég vildi ræða hér er einmitt störf þingsins. Það er talað um að kosningabaráttan sé hér, rekin héðan. Ég tel að núverandi ríkisstjórn hafi rekið hana allt kjörtímabilið með því að leiða mörg góð mál til lykta fyrir samfélagið. Það verður að segjast eins og er að störfin hafa gengið mun betur undanfarin missiri en oft áður og verið til fyrirmyndar. Hér hefur þingið tekið sig saman um að afgreiða mörg góð mál og ræða þau á skynsamlegan hátt, án málþófs og annars slíks. Því miður hafa undanfarnir dagar ekki verið þannig. Það hefur hryggt mig mikið að sjá að þegar mál eru á dagskrá eins og fjögurra ára samgönguáætlun sem ég tel mikla sátt um að klára og allir telja þjóðþrifamál, þurfi að fara að lengja hér fundi og tala meira í hinum ýmsu málum og saka mann svo um leið um að vera ekki á staðnum. Ég er búinn að bíða hér dag eftir dag eftir að komast á mælendaskrá til að ræða þetta þjóðþrifamál. Þá er alls kyns önnur umræða og fundarstjórn forseta í gangi. Það segir sig sjálft að maður nennir ekki endalaust að vera á staðnum til að hlusta á svoleiðis málflutning.

Ég vil benda á málin sem eru á dagskránni í dag sem sýnir að við hefðum getað nýtt síðustu daga í mörg mál: Stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð, tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, höfundalög, losun fjármagnshafta, opinber innkaup. Svo eru fleiri góð mál sem bíða tilbúin eins og LÍN, (Forseti hringir.) gjafsóknarmálið, og svo eru almannatryggingar vonandi á leiðinni inn líka. Við getum nýtt tímann vel í mál sem eru þjóðinni til heilla. Við eigum að gera það.


Tengd mál