145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Fyrir þinginu liggur mál sem snýr að því að móta stefnu til að draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvöru. Mjög gott og þarft mál. Til dæmis er eina leiðin til að hafa eftirlit með vörum, hvort þær innihaldi þalöt, að efnagreina vöruna til að sannreyna innihald hennar. Slíkar greiningar eru mjög kostnaðarsamar og þess vegna hefur ekki verið ráðist í þær hér á landi. Ég tel það mjög alvarlegt, sér í lagi vegna þess að hlutur netverslunar á markaðnum fer vaxandi, þ.e. verslun við lönd þar sem talið er að notkun sé meiri á kemískum efnum og ódýrari í stað þeirra sem búið er að prófa, enda er kostnaður við náttúruleg og vottuð efni svo mikill út af því eftirliti sem þar þarf.

Því miður er löggjöfin í dag miklu meira sniðin að hagsmunum framleiðenda en að hagsmunum almennings og neytenda. Ég tel að við séum að kasta ákveðnum möguleikum á glæ með því að ákveða að það sé bara allt of dýrt að framkvæma rannsóknir. Við höfum til dæmis ekki einu sinni athugað hvort hægt væri að gera einhverjar stikkprufur. Skaðsemi ákveðinna þalata er þekkt. Þau geta haft áhrif á frjósemi manna, valdið krabbameinum og ofnæmi. Þá eru fóstur og nýfædd börn viðkvæmust fyrir þessum efnum. Ég tel þess vegna að þetta sé ekki mál til að gera lítið úr eða reyna að gantast með. Þessi efni eru þrávirk og þau safnast upp í líkama okkar. Ég tel að við eigum rétt á að fá að vita hvað er að finna í þeim vörum sem við kaupum, plastflöskum, ílátum undir matvæli, pelum, naghringjum, leikföngum og öðru til handa börnum ásamt húsgögnum og borðbúnaði o.fl.

Önnur Norðurlönd hafa staðið sig vel í þessum málum. Þar gerir fólk sér fyllilega grein fyrir þeim áhrifum sem þessi efni geta haft og tengja þau ekki aðeins inn í umhverfismál heldur einnig velferðarmál. Ég tel að við ættum ekki að vera eina Norðurlandaþjóðin sem gerir lítið úr skaðsemi þessara efna. Það væri gott, þar sem mjög mikil sátt hefur verið um þetta mál (Forseti hringir.) á milli flokka, eins og sást í umræðunni þegar þetta var til umræðu hér, að við reyndum að koma þessu í gegn svo að við þurfum ekki enn og aftur að mæla fyrir svo mikilvægu neytendamáli.


Efnisorð er vísa í ræðuna