145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:10]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Enn og aftur fagna ég umræðunni um samgöngumál sem ég tel vera stærsta velferðarmálið hverju sinni og þreytist ekki á að segja það. Það er augljóst af því að öruggar samgöngur draga fyrst og fremst úr umferðarslysum og þau kosta samfélagið um 50 milljarða á ári fyrir utan félagslega kostnaðinn. Í umferðinni einni og sér eru það 200 manns sem slasast alvarlega á ári hverju eða láta lífið. Við verðum að koma í veg fyrir þetta og það sem fyrst.

Ég er með undir höndum tillögur sem verið er að vinna að og ég mundi vilja vinna framgang þar sem EuroRap er búið að kortleggja vegakerfið, hvar hættulegustu vegirnir eru og þeir slysamestu. Ég fékk þessa niðurstöðu í svari við fyrirspurn til innanríkisráðherra fyrr í vetur. Með því að nota þessi gögn getum við farið markvisst í að fækka umferðarslysum á skömmum tíma um 50%. Varlega áætlað mundi þessi aðgerð kosta á nokkrum árum í heild sinni um 9 milljarða kr. en mundi spara á ári a.m.k. 25 milljarða. Það er algjörlega augljóst að þetta er eitthvað sem á að ráðast í og það sem allra fyrst. Við verðum að taka okkur saman um það.

En það er ekki bara öryggishluturinn, þó að öryggið sé númer eitt, tvö og þrjú. Þjóðhagsleg hagkvæmni kemur á margan hátt inn í þetta. Það eykur hagkvæmni í rekstri fyrirtækja og opinberra stofnana og annað slíkt að hafa greiðar samgöngur. Greiðar samgöngur auðvelda það að reka sveitarfélög og opinberar stofnanir með því að auðvelda samstarfsverkefni og jafnvel sameiningar. Þetta dreifir ferðamönnum betur um landið, sparar tíma almennings í umferðinni, það er umhverfisvænna og lengi mætti áfram telja.

Þetta er það sem við þurfum að huga að en þó að samgöngumál festist svolítið oft í umræðunni um vegi og umferðarslys og allt það þá er ég þeirrar skoðunar að við eigum að gera öllum samgöngum jafnt undir höfði. Við eigum ekki að hygla annarri samgönguleið umfram aðra, það er mikilvægt. Því vil ég lýsa mikilli ánægju með framtak Flugfélags Íslands í að hefja innanlandsflug frá Keflavík til Akureyrar og vona að þetta sé aðeins upphafið að öflugra innanlandsflugkerfi til að dreifa ferðamönnum um landið og auka þjónustu íbúanna. Ég árétta að ef öflugt innanlandsflug byggist upp á Keflavíkurflugvelli og á fleiri stöðum um landið mun það vafalaust styrkja innanlandsflugið á Reykjavíkurflugvelli því að það gæti orðið til þess að ferðamenn mundu fljúga út á land frá Keflavík en fljúga til baka til höfuðborgarinnar eða öfugt, færu með almenningssamgöngum til höfuðborgarinnar og byrjuðu á að skoða hana og flygju svo frá Reykjavíkurflugvelli út á land og flygju svo beint til Keflavíkur áður en flogið er út. Þetta mun bara hjálpa hvert öðru. Ferðaþjónustufyrirtæki um allt land hafa yfir 70 „höbba“ sem þau geta markaðssett til að fá ferðamenn í gegnum innanlandsflugið ef það fer af stað í Keflavík. Þess vegna skora ég á fleiri flugfélög að taka Flugfélag Íslands sér til fyrirmyndar og hvet þau áfram til góðra starfa í þessu. Þetta er afar mikilvægt.

Ég ræddi það aðeins í fyrri ræðu minni hversu mikilvægt það er að leita leiða til að fá fleiri að því að reka innanlandsflugvellina úti um landið, markaðssetja þá og finna einhver verkefni fyrir þá. Þar hef ég oft rætt þá hugmynd hvort koma mætti innanlandsflugvöllunum til einkaaðila eða sveitarfélaga eða í bland sem mundu taka að sér reksturinn og oft á hagkvæmari hátt en ríkið getur með sínu lagaverki. Það yrði styrkjakerfi til að aðstoða við rekstur þessara valla svipað og er með hafnirnar. Sveitarfélögin reka hafnirnar og fá uppbyggingarstyrki ef hafnirnar uppfylla viss skilyrði. Það er hægt að búa til þannig skilyrði fyrir flugvellina varðandi íbúafjölda, mikilvægi út frá sjúkraflugi, ferðamönnum og öðru slíku og þannig verður flugvöllurinn styrkhæfur, rekstraraðilinn getur sótt um styrk og þá fara menn í að leita að verkefnum og reyna að markaðssetja flugvöllinn og nota hann sem best. Ef innanlandsflug hefst frá Keflavík að einhverju marki eykur það notkun á þessum völlum og hagkvæmni í rekstri þeirra. Allt hjálpast þetta að. Þetta er gríðarlega mikilvægt og ég minni alltaf á að innanlandsflugið er eitt mikilvægasta almenningssamgöngukerfið sem við höfum í dag og eitt mest notaða.

Mig langar að koma betur inn á hafnirnar sem ég þurfti að fara yfir á hundavaði síðast. Hafnir eru eitt mikilvægasta atvinnusköpunartækið í hverju bæjarfélagi og svæðin þar í kring njóta þeirra. Mikilvægi hafnanna þarf að fá meira svigrúm í umræðunni. Þær eru grundvöllur að því að útgerðin geti starfað og líka sem tenging til að flytja inn og út vörur. Þar sem eru öflugar hafnir getur byggst upp mikil og fjölbreytt atvinnustarfsemi bæði í fiskvinnslu og því sem tengist millilandaflutningum, það mætti nefna geymslur, ferjusiglingar og því um líkt. Þetta er mikilvægt.

Ég vil taka dæmi um mikilvægi þess að halda við höfnum og nefni þá höfnina á Hornafirði. Hornafjörður er oft eins og eyja vegna fjarlægðar sinnar frá höfuðborginni og veðurskilyrðum og öðru. Þar er mest byggt upp á útgerð, stórútgerðarhöfn. Ef höfnin þar mundi lokast væru örugglega 70% af atvinnutækifærunum farin á einni nóttu eða a.m.k. í verulegri hættu. Þá værum við komin með brothætta byggð. Þar er mjög mikilvægt að stunda rannsóknir á aðstæðum í höfninni og rannsóknir í samgöngumálum almennt eru mjög mikilvægar, hvort sem er í gangagerð, hafnargerð, vegagerð, flugi eða öðru. Svona aðstæður eru víða um landið, við verðum að huga að þessu. Ég nefndi líka síðast Þorlákshöfn en þaðan fáum við núna fréttir mánaðarlega um einhverjar breytingar á atvinnustarfsemi þar, annaðhvort uppsagnir eða eigendaskipti. Þær framkvæmdir sem við höfum verið að leggja fjármagn í samgönguáætlun og á fjárlögum undanfarinna ára munu skipta sköpum fyrir atvinnulífið þar og fjölbreytileika þess. Þar er mikið landbúnaðarhérað í kring þar sem bændur vilja í auknum mæli fara að flytja matvöru á erlenda markaði, þurfa að fá aðföng og tæki sem er þá gott að flytja t.d. með ferjusiglingum og er mun hagkvæmara. Það er hægt að vera með alls kyns innflutning á matvælum og öðrum vörum og fara þá styttri siglingarleið, menn þurfa ekki að sigla alveg fyrir Reykjanesið sem mun stytta afhendingartímann inn á markaðinn og svo mætti lengi telja.

Tíminn er alltaf svo skammur sem manni er skammtaður hér til að ræða þetta mikilvæga mál en ég legg áherslu á að samgöngur eru forsenda þess að við getum aukið hagvöxtinn, aukið tekjurnar sem við ætlum að nota í velferðarmálin en þær eru líka forsenda þess að draga úr álagi á velferðarkerfið því að góðar samgöngur fækka slysum og öðru slíku og svo er það hagkvæmnin. Við verðum að hafa í huga hvað það er gríðarlega mikilvægt að við ræðum þetta og þá kannski, eins og ég kom inn á síðast, að við ræðum þær út frá heildarmikilvæginu, öllu þessu, ekki bara út frá einstaka samgönguframkvæmdum. Fyrst þurfum við að ákveða mikilvægi málaflokksins og fjármagnið og svo þurfum við að útdeila því eftir því hvað er hagkvæmast og skynsamlegast og öruggast hverju sinni.