145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:27]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur erum við hv. þingmaður sammála. Hún endaði á að tala um jarðgöng, en þau eru bara eins og allar aðrar samgönguframkvæmdir, gríðarlega mikilvæg. Samgöngur í heild sinni eru jafnréttismál, bæði milli kynjanna, svæðanna og annars. Ég tek undir það. Ég yrði alveg sáttur ef Ísland yrði eins og svissneskur ostur af jarðgöngum. Það mun bæta alla. Jarðgöng eru ekki bara jafnréttismál, þau eru líka umhverfismál. Það er gríðarleg mengun og kostnaður fyrir fyrirtæki í flutningastarfsemi að þurfa að keyra yfir háar heiðar. Það fer líka mikil orka í að halda þessum heiðum opnum. Því fylgir mikil slysahætta og það er mikið áhyggjumál fyrir íbúana að þurfa að ferðast yfir heiðar yfir vetrarmánuðina og annað slíkt þannig að allt mælir með þessu, eins og öllum öðrum samgönguframkvæmdum.

Svo vil ég koma inn á aðra samgönguframkvæmd sem nær öllum þessum markmiðum, en sem við ræðum ekki samhliða samgönguáætlun af því að það er ekki þar inni. Það eru fjarskiptamálin og ljósleiðarinn sem stuðla líka að auknu jafnrétti af því að þá er oft hægt að vinna fjarri aðalstöðvunum. Það gefur manni aukið frelsi. Allar samgöngur gefa manni aukið frelsi til búsetu og eykur möguleikana og það er það sem við viljum gera.

Ég held að besta leiðin til að ná árangri í þessu öllu sé að við höfum náð sameiginlegri sýn og vitum hvert við eigum að stefna, og þingmenn hafa aðeins gefið eftir gagnvart því að ákveða hvaða vegarspotti verður tekinn fyrir.