145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:29]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar einmitt að ræða við hann um ljósleiðaramálin. Við erum búin að tala mikið og takast á í þingsal um aðgerðaáætlun stjórnvalda sem liggur ekki fyrir enn þá, mér vitanlega, hún hefur ekki enn birst. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að sú leið dugi til sem núverandi ríkisstjórn hefur verið að fara og virðist stefna í að fara aftur næsta vor þegar útboð verður. Ég velti því fyrir mér varðandi fjárhæðirnar og tímalengdina sem því fylgir ef ekki verður bætt í það auknum fjármunum. Er hin mikla samkeppni á milli sveitarfélaga það sem brýnast er, þ.e. að horfa eingöngu á fjölda tenginga en ekki að koma til móts við brothættustu svæðin? Sveitarfélögin gerðu ráð fyrir því og við höfum fengið áskoranir frá þeim og átt samtöl við sveitarstjórnarmenn um að þetta sé ekki það sem lagt hafi verið upp með af hálfu ríkisstjórnarinnar, a.m.k. skildu sveitarfélögin á mínu svæði það ekki þannig, það er alveg klárt, það hefur komið fram. Mér þykir það auðvitað mjög bagalegt. Hér er um að ræða Berufjörð, Borgarfjörð eystri, þar sem þetta verður aldrei arðbært.

Ég velti fyrir mér: Er hægt er að fara einhverja aðra leið? Eða styður þingmaðurinn það að við státum okkur af einhverjum fjölda tenginga? Þau sveitarfélög sem eru best í stakk búin fjárhagslega undirbúa sig þá af kappi fyrir það vegna þess að þau vita að fram undan er einhvers konar keppni um það hver fær næst, í staðinn fyrir að við horfum á málið út frá byggðasjónarmiði. Eða, eins og hv. þingmaður endaði á að segja, að maður geti valið að búa á stað sem hefur lágmarksinnviði til þess að maður geti sinnt störfum sem mann langar að sinna eða lært það sem mann langar til að læra.