145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:31]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri til að halda áfram umræðunni um ljósleiðarann, sem er mér mikið hjartans mál, sérstaklega í þessum brothættu byggðum. Ég vil byrja á að segja að ég tek ekki undir orð þingmannsins um að einhverjir staðir verði aldrei arðbærir. Það er aldrei þannig af því að samgöngumannvirki hafa alltaf tækifæri til þess að verða arðbær. Það er ekki sjálfgefið að þau verði það, en þau hafa alltaf tækifæri til þess. Við sjáum sveitarfélög sem fá öfluga ljósleiðaratengingu. Það þarf ekki nema ein fjölskylda á háum tekjum að flytja í sveitarfélagið út í sveitarómantíkina og vinna starf sitt þar og borga útsvar, þá fær sveitarfélagið gríðarlegar tekjur af þessari einu ljósleiðaratengingu. Gríðarlegar tekjur. Það hefur oft gerst. Ef það mun auka atvinnuuppbyggingu, útsvarsgreiðslur og verðmætasköpun í sveitarfélögunum er það svo gríðarlega arðbært.

Þess vegna tek ég alveg undir það og ég mun aldrei segja að nægt fjármagn sé sett í samgöngumál. Ég held að þar nýtist hver króna það vel að hún komi margföld til baka. En okkur á alveg að vera óhætt að fara svolítið öflugar inn í þessa ljósleiðaravæðingu. Tæknin þróast hratt, þannig að þessi fimm ára áætlun stjórnvalda tekur vissulega fimm ár, sem er langur tími á tækniöld, mjög langur tími, en þó eru komnir 5,5 milljarðar fyrir þetta í ríkisfjármálaáætlun næstu fimm árin. Það munar um það.

Þetta er kannski spurning um hvernig við nýtum fjármagnið sem best. Hvernig þjónustum við sem flesta fyrir sem minnst fjármagn? Hvernig nýtist fjármagn skattgreiðenda? Svo þurfum við bara að ræða það hversu lengi brothættustu byggðirnar geta beðið og hvort við þurfum að fara í einhverjar sértækar aðgerðir fyrir (Forseti hringir.) utan þessa leið til þess að aðstoða þau.