145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:58]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Við ræddum hér í gær aðeins um höfuðborgina og flestir sem tóku þátt í samtali um samgönguáætlun töluðu um landsbyggðina. Það var því ágætt að fá hér afar góða yfirferð og hugmyndir um höfuðborgina því að það er svo sannarlega þannig að hún er að springa í vegakerfinu, alveg sama hvort við lítum okkur nær hér í 101 og 105, eða hvað það er, eða á gáttirnar út úr borginni, þær eru auðvitað sprungnar. Hér er lagt til í framtíðarsýn ríkisstjórnarflokkanna sem lögð hefur verið fram í samgönguáætlun sem gilda á til 2026, að Sundabrautin fari í samstarf við einkaaðila. Fleiri stórar framkvæmdir hefur ráðherra þessara mála viðrað að setja í þann farveg. Það er áhugavert að heyra hvað hv. þingmanni finnst um það.

Mig langaði að grípa boltann þar sem hún endaði varðandi flugvöllinn. Við hófum það samtal aðeins í gær, en ég tek alveg undir með henni varðandi drónana sem eru hér á flugi. Komið hefur fram tillaga um hvernig fara megi með þá hér á landi. Fyrir liggur tillaga frá formanni Vinstri grænna, Katrínu Jakobsdóttur, sem ekki hefur fengið afgreiðslu. En ef við erum eingöngu að hugsa um flugvallarflutninginn, innanlandsflugið og tenginguna þar undir þegar kemur að því að færa flugvöllinn, telur hv. þingmaður þá þegar kemur að heilbrigðisþjónustunni að hægt sé að mæta því með miklu öryggi og þeim tímaramma sem talað hefur verið um að þurfi (Forseti hringir.) með því að færa innanlandsflugið suður til Keflavíkur?