145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[12:01]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir andsvarið. Ég veit ekki um hversu margar ferðir er að ræða á ári þar sem tíminn skiptir öllu máli. Ég geri ekki lítið úr því og hef sjálf reynslu af því þegar ég bjó austur á fjörðum. Ég er ekki alveg blaut á bak við eyrun í þeim efnum. En er það þá ekki verkefni sem við leysum sérstaklega og tökum út fyrir sviga í umræðunni um staðsetningu flugvallarins, það afmarkaða viðfangsefni? Í dag er þyrlupallur við Borgarspítalann þannig hægt er að flytja fólk með þeim hætti. Það mætti þess vegna hugsa sér að flytja fólk með þyrlu frá Keflavík. Nú tala ég ekki af þeirri þekkingu að ég viti það, en við vitum að hægt er að lenda við Borgarspítalann þannig að ég get ekki séð annað en að vandann varðandi sjúkraflug sé hægt að leysa séstaklega. Auðvitað er það mál sem kallar á sérstaka yfirlegu.

Stóra myndin er sú að það er þjóðhagslega hagkvæmt, það er hagkvæmt fyrir þróun samfélagsins að við flytjum flugvöllinn af þessu svæði. Ég heyri að Hvassahraunið verður sífellt sterkari kostur í staðsetningu innanlandsflugvallar. Það kann að vera að það sé skynsamlegt að fara ekki með hann alla leið suður í Keflavík. Mér finnast hins vegar býsna sterk þau rök að þar komi bein tenging við millilandaflug, fyrir utan að þar er öll aðstaða sem hægt er að grípa til. Því þarf ekki að fara í dýrar fjárfestingar eins og í Hvassahrauni. En ég segi það með þeim fyrirvara að ég hef ekki kafað djúpt ofan í (Forseti hringir.) Hvassahraunshugmyndina.