145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[12:03]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Mér dettur í hug þegar við tölum um Hvassahraun, af því að við höfum verið að kljást við Bakka og umhverfismat og nýja hraunið og annað slíkt, að ég hefði gjarnan viljað sjá þá umræðu fara af stað þegar kemur að Hvassahrauni. Er það yfir höfuð möguleiki í ljósi umræðu um umhverfisþáttinn eða ekki? Ég veit það ekki. En mér þætti alla vega áhugavert að það yrði tekið samhliða svo við lentum þá í það minnsta ekki í einhverjum slíkum vandræðum eins og við erum lent í nú með málið fyrir norðan.

Ég man ekki nákvæmlega töluna en ég held að það séu á áttunda hundrað sjúkraflug hjá Gæslunni en á sjöunda hundrað hjá Mýflugi. Það hefur alla vega komið nægjanlega oft fyrir, getum við sagt, að tíminn skipti máli í því efni. En mér finnst við verða að klára málin samhliða. Ég er alveg til í að skoða þessa hugmynd. Hér er hins vegar öll opinber stjórnsýsla og mér finnst svo margir þættir þurfa að hanga saman. Stór hluti fólks sækir sér opinbera þjónustu eða læknisþjónustu til Reykjavíkur og ferðast með innanlandsflugi. Sú þjónusta verður ekki endilega veitt á sjúkrahúsinu í Keflavík.

Svo er það þetta með tímann. Það er ákvörðun að byggja hér upp, og þó að byggt yrði upp einhvers staðar annars staðar þarf þetta að liggja fyrir. Hv. þingmaður kom inn á nýjar hugmyndir um samgöngumáta, það yrðu kannski ekki léttlestir heldur eitthvert annað samgöngutæki innan höfuðborgarinnar eða á milli höfuðborgarinnar og Keflavíkur. Ákvarðanirnar þurfa að hanga saman. Mér finnst ekki við geta sagt: Við flytjum þetta og svo kemur kannski hitt, eða ekki. Mér finnst verkefnin verða að tengjast.