145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[12:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Nú er nokkuð liðið á þessa umræðu um fjögurra ára samgönguáætlun sem hófst í síðustu viku og vonandi sér fyrir endann á þeim umræðum bráðlega. Nú er það ekki svo að ég sé að kvarta yfir því að þingmenn ræði samgöngumál. Þetta er kærkomið tækifæri til þess að taka umræðu um þann mikilvæga málaflokk og mikilvægt að það komi fram að í störfum umhverfis- og samgöngunefndar hefur í meginatriðum verið allgóður samhljómur um áherslur sem nú liggja fyrir. Það má segja hins vegar að það voru nokkuð langdregnar fæðingarhríðir áður en umfjöllun nefndarinnar lauk, en það skilaði þó þeim árangri að meiri hluti nefndarinnar taldi sig geta lagt fram breytingartillögur sem fyrir næstu tvö ár fela í sér hækkun um 11 milljarða kr. til málaflokksins, sem er um 10% hækkun. Þó að biðin væri að sumu leyti bagaleg gerði hún það að verkum að sátt náðist um að verja töluvert meiri peningum til þessara mála en upphaflega var gert ráð fyrir þegar þingsályktunartillagan var lögð fram af hálfu ríkisstjórnarinnar, þannig að það var nú nokkurs vert.

Þegar ég tala um samstöðu í nefndinni þá greinir menn auðvitað eins og alltaf á um forgangsröðun og einstök verkefni. Ég mundi segja að í þessu tilviki, í þessari lotu, hafi ekki verið djúpstæður ágreiningur um þau efni heldur hafi þau verkefni sem hér er lögð áhersla á notið almennt víðtæks stuðnings, bæði þau sem voru í hinni upphaflegu áætlun og þau sem koma fram í breytingartillögu meiri hlutans.

Ég vil jafnframt segja varðandi breytingartillögur minni hlutans að þar er vissulega líka um að ræða jákvæð verk og skynsamleg í flestum tilvikum, hygg ég, en í tillögugerð meiri hlutans var hins vegar ekki talið rétt að forgangsraða nákvæmlega með þeim hætti sem minni hlutinn lagði áherslu á. Enn geta auðvitað komið fram breytingartillögur við málið meðan umræða stendur en ég hygg þó að línur hafi skýrst í öllum meginatriðum.

Aðrir hv. ræðumenn hafa fjallað um þá mikilvægu útgangspunkta sem þarf að hafa í huga þegar áætlanagerð af þessu tagi er frágengin af hálfu þingsins. Markmið samgöngustefnu eða samgönguáætlunar er auðvitað að tryggja ýmsa þætti. Það er verið að tryggja greiðar samgöngur milli byggðarlaga, bæði út frá byggðasjónarmiðum, atvinnusjónarmiðum og öðrum slíkum sjónarmiðum. Forgangsröðun þarf líka að taka mið af umferðaröryggi og möguleikum á nýsköpun eins og nefnt hefur verið, það þarf að taka tillit til breytinga sem hafa orðið á atvinnuháttum, umferð og álagi á einstaka þætti kerfisins. Þrátt fyrir að ég geti tekið undir með flestum þeim sem hér hafa talað að æskilegt hefði verið að unnt hefði verið að verja meiri peningum í þau verkefni sem hér er um að ræða, þá held ég að þær áherslur sem birtast í samgönguáætluninni og breytingartillögunum séu í samræmi við þessi sjónarmið. Það er verið að reyna að tryggja greiðari samgöngur milli byggðarlaga. Það er verið að reyna að efla samgöngur þar sem það er mikilvægt út frá atvinnulífi og atvinnuforsendum. Það er líka farið í átak til þess að stuðla að auknu umferðaröryggi, það er þáttur sem síst má gleyma í þessu sambandi.

Þegar rætt er um fjárveitingar til samgöngumála þá hafa menn oft horft á hlutfall af vergri landsframleiðslu sem er einn mælikvarði. Eins og birtist í ágætu súluriti sem minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar birti með nefndaráliti sínu þá sést að eftir ákveðinn topp 2008 hefur þróunin heldur verið niður á við. Við sjáum þó súluna fara aftur upp 2015 og nái þessi tillaga fram að ganga erum við að tala um enn frekari hækkun þótt við náum ekki þeim hæðum sem hér var akkúrat í kringum hrun. En þegar mælikvarðinn hlutfall af vergri landsframleiðslu er notaður þá þarf auðvitað að hafa í huga að hann er ekki einhlítur, hann segir ekki til um krónur og aura. Síðustu árin hefur verg landsframleiðsla aukist mjög mikið með miklum hagvexti. Þess vegna skilar sama hlutfall af vergri landsframleiðslu hærri fjármunum í þessi verkefni en var fyrir fimm, sex árum. Með þessu er ég ekki að segja að nóg sé að gert og ég tek auðvitað undir það sem aðrir hafa bent á að tveir þættir kalla á mikið átak í þessum efnum. Annars vegar hefur mikil fjölgun erlendra ferðamanna aukið álag á vegakerfið sérstaklega, alveg gríðarlega. Það eru miklu fleiri bílar og miklu fleiri ferðamenn á vegunum en var fyrir fáeinum árum. Það kallar á frekari framkvæmdir. Það kallar líka á það að huga þarf betur að þáttum eins og öryggismálunum. Hinn þátturinn sem þarf auðvitað að hafa í huga er að á árunum eftir hrun var stigið nokkuð hressilega á bremsurnar í sambandi við framkvæmdir á sviði vegamála. Þó að taflan um framlög sem hlutfall af vergri landsframleiðslu endurspegli það ekki nægilega vel þá verðum við að horfa á það að á þeim tíma dróst verg landsframleiðsla verulega saman þannig að á þeim tíma hægði mjög á öllum framkvæmdum og menn voru að spara í viðhaldi, menn voru að spara í nýframkvæmdum og öðru slíku. Ég ætla ekki að gagnrýna það, en það kom hins vegar margoft fram við umræður á þeim tíma að með því að fresta viðhaldsverkefnum og slíku þá væru menn ekki að búa til eiginlegan sparnað heldur bara að fresta útgjöldum. Vandinn í sambandi við vegakerfið er náttúrlega oft á tíðum sá að með því að fresta framkvæmdum þá verður kannski viðgerðin eða endurbæturnar enn þá kostnaðarsamari þegar sá tími kemur að menn ætla að fara út í þær.

Að einhverju leyti reyndum við í tillögugerð okkar í umhverfis- og samgöngunefnd að koma til móts við þetta með því að auka fé í viðhald og framkvæmdir af því tagi. Ég er ekki í vafa um að betur má gera í þeim efnum, en hins vegar er verið að auka umtalsvert það fé sem þarf að verja til þeirra verkefna. Ég sem þingmaður af höfuðborgarsvæðinu legg áherslu á að það þarf líka að huga að viðhaldi þeirra vega á þessu svæði sem eru í umsjón Vegagerðarinnar og tryggja að þeir þoli álagið.

Ef ég velti fyrir mér öðrum þáttum sem við komum inn á í breytingartillögunum þá er svo sem óþarfi að rekja einstakar framkvæmdir. Ég held að um þær framkvæmdir sem listaðar eru upp í breytingartillögum okkar hafi verið býsna góð samstaða. Það má alltaf deila um í hvaða röð svona verkefni eru sett, en þetta var niðurstaða sem byggði á umræðum og byggði m.a. mjög mikið á áherslum frá landshlutasamtökum sveitarfélaga.

Við komum inn á verkefni sem menn hafa talið að þyrfti að bæta töluvert, það eru tengivegir og héraðsvegir. Eins leggjum við til meiri framlög til breikkunar brúa sem er auðvitað svolítið sérstakt verkefni, en við höfum séð að út frá öryggissjónarmiðum er gríðarlega mikilvægt að fækka einbreiðum brúm. Þótt verkefnin séu ærin fram undan á því sviði má segja að með þeim tillögum sem hér liggja fyrir séum við þó að stíga töluvert stór skref í rétta átt.

Síðasti ræðumaður, hv. þm. Anna Margrét Guðjónsdóttir, vék nokkuð að höfuðborgarsvæðinu. Um sumt er ég sammála henni, t.d. áhersluna á Sundabraut. Það hefur auðvitað verið vandræðamál, þannig að það sé viðurkennt, fyrir öll stjórnvöld, bæði á vettvangi ríkis og sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar, hvað skyldi gera í þeim efnum. Ég minnist þess að fyrir um tíu árum voru vandamálin frekar tengd skipulagsmálum en fjármunum. Nú er staðan kannski að einhverju leyti breytt, en ég tek eindregið undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að koma þessu máli á meiri skrið. Hæstv. innanríkisráðherra hefur sýnt því áhuga, en við þurfum að sjá meira afgerandi tillögur en þegar hafa komið fram í þeim efnum þannig að hægt verði að ýta því verkefni áleiðis. Það er eins og hv. þingmaður benti á gríðarlega mikilvægt fyrir þá sem búa í höfuðborginni og norðurhluta höfuðborgarsvæðisins, en það skiptir líka gríðarlega miklu máli fyrir stóran hluta landsins því að þarna er um að ræða mikilvæga samgöngutengingu milli eiginlega alls Norður- og Vesturlands og höfuðborgarinnar. Að því leyti er þetta ekki þröngt kjördæmamál, svo maður leyfi sér að orða það með þeim hætti, heldur gríðarlega mikilvægt samgöngumál fyrir landið allt. Ég tek það fram þannig að menn séu ekki í vafa um að ég tel að það sé bæði jákvætt og gott ef hægt er að vinna þetta verkefni í góðu samstarfi ríkis og borgar, en um leið tel ég að það sé rétt með einhverjum hætti, hugsanlega sama hætti og gert var með Hvalfjarðargöng, að tengja einkaaðila inn í þetta verkefni. Ég tel að það sé í raun og veru forsenda þess að hægt verði að hefjast handa miklu fyrr en ella. Ég er ekki í vafa um að þarna er um að ræða framkvæmd sem mundi geta staðið undir sér á skömmum tíma eða tiltölulega skömmum tíma í sögulegu samhengi.

Hv. þingmaður nefndi einnig almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Það er rétt sem fram kom að allt frá árinu 2012 hefur verið í gildi samkomulag milli ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um að ríkið tæki þátt í að kosta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Það var auðvitað ákveðin forsenda fyrir þeim samningi á þeim tíma að ekki væri um að ræða sérstakar stórframkvæmdir aðrar eins og mislæg gatnamót eða þess háttar á þessu svæði. Ég taldi á sínum tíma að sveitarfélögin hefðu, mér liggur við að segja samið af sér vegna þess að þessi milljarður á ári var kannski ekki há fjárhæð í samanburði við ýmis verkefni sem ég taldi þörf á að farið yrði í á þessu svæði. En látum það vera. Hér er um að ræða samning sem er í gildi. Það verður auðvitað fróðlegt þegar kemur aðeins lengra inn í samninginn að meta það hvernig hann hefur skilað markmiðum sínum. Ég held að allir geti tekið undir að það er æskilegt að stærri hluti umferðar á höfuðborgarsvæðinu beinist inn í almenningssamgöngur. Út frá mörgum ólíkum sjónarmiðum þá held ég að það sé æskilegt. En ég held hins vegar að ef við ætlum að vera raunsæ þá verðum við áfram að gera ráð fyrir því að mjög stór hluti umferðar á höfuðborgarsvæðinu og svo sem annars staðar á landinu líka verði með einkabílum. Þá þarf að laga samgöngukerfið eða tryggja það að samgöngukerfið anni því líka.

Að lokum, hæstv. forseti, af því hér var örfáum orðum vikið að flugvelli þá er ég ósammála hv. þm. Önnu Margréti Guðjónsdóttur um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Ég tel að hann muni um alllangt skeið áfram verða á sama stað og tel óraunhæft að ætla að flytja hann. Persónulega hef ég ekki mikla trú á hugmyndum um flugvöll í Hvassahrauni, hvort sem það yrði innanlandsflugvöllur, millilandaflugvöllur eða hvort tveggja. Ég held einfaldlega að þá séum við komin það nálægt alþjóðaflugvellinum í Keflavík að það fari að verða spurning hvort skynsamlegt sé að byggja upp nýjan flugvöll með öllu því sem því fylgir á því svæði þegar leiðin til Keflavíkur er orðin þetta stutt. En svo er líka áhugavert sjónarmið sem kom fram í andsvörum áðan hvernig slík framkvæmd, sem yrði af gríðarlegri stærðargráðu, yrði metin út frá umhverfissjónarmiðum jafnvel þó að allar aðrar forsendur yrðu fyrir hendi, arðsemisútreikningar gengju upp. Ég velti fyrir mér hvernig stemningin yrði fyrir því í samfélaginu að byggja gríðarstór mannvirki, ekki bara flugvöll, flugstöð, bílastæði, vegtengingar og annað sem mundi fylgja á þessum stað, í hrauni sem runnið er á nútíma í jarðfræðilegum skilningi og menn eru að gera vandræði út af miklu minni framkvæmdum norður í landi núna. Yrði einhver sátt um slíka aðgerð? Ég leyfi mér að efast um það. En hvað sem verður eftir einhverja áratugi með flugvöll og tengingu höfuðborgar og landsbyggðar að öðru leyti þá held ég að það sé a.m.k. ljóst að flugvöllurinn verður í fyrirsjáanlegri framtíð áfram í Vatnsmýrinni. Ég held að hvernig sem atburðarás verður nákvæmlega í þeim efnum þá muni Reykjavíkurborg ekki takast að skipuleggja flugvöllinn algjörlega út í trássi við vilja meiri hluta þings og þjóðar.