145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[12:26]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni sem jafnframt er í umhverfis- og samgöngunefnd fyrir hans fínu yfirferð um málið sem hér er til umræðu. Það gladdi mig sérstaklega að heyra að hann er sammála mér um Sundabrautina. Eins og hann nefndi réttilega er þetta auðvitað ekki spurning um kjördæmapot, þetta er spurning um eina þýðingarmestu tengingu á milli höfuðborgarsvæðis og Vesturlands og Norðurlands, þ.e. á milli stærstu kjarna landsins annars vegar við Eyjafjörð og hins vegar á suðvesturhorninu.

Í ljósi orða hans, virðulegi forseti, þá treysti ég því og vona að hann sjái til þess að liðurinn Sundabraut sem hefur verið felldur út í þingsályktunartillögu nefndarinnar verði settur inn aftur áður en málið kemur til afgreiðslu, vegna þess að eins og hv. þingmaður nefndi réttilega þá þurfum við að þoka þessu máli áfram. Það er hætt við því að ef það er dottið út úr samgönguáætlun eða fjárveitingu til samgöngumála þá lendi það milli stafs og hurðar í umræðu um samgöngumál.

Ég er sammála hv. þingmanni að skynsamlegt sé að skoða kostina og ég held að það sé skynsamlegt að setja Sundabrautina að einhverju leyti í einkaframkvæmd. Hvernig það er síðan útfært eða hvernig gjaldheimtan eða innheimtan er innt af hendi er svo annað mál og úrlausnarmál, en það þarf auðvitað síðan að ræða gjaldskrá og annað því um líkt. Ég held að það sé mjög mikilvægt að halda þessu máli vakandi, sjá til þess að það sé inni á samgönguáætlun og sjá til þess að ráðuneytið haldi málinu áfram og fari eftir atvikum að leita að áhugasömum fjárfestum því að eins og kom fram í máli hv. þingmanns þá (Forseti hringir.) var þetta lengst af vandamál tengt skipulagsmálum, en sú er ekki lengur raunin.