145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[12:30]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir hans orð. Ég ætla að taka upp þráðinn þar sem hann lagði hann niður í ræðu sinni og segja að eftir 25 ár verðum við ekki að hugsa um Sundabraut. Þá vona ég líka og treysti því og trúi að eftir 25 ár verðum við hætt að ræða flugvöll í Vatnsmýrinni í Reykjavík.

Ég tek undir efasemdir hans um að setja nýjan flugvöll í Hvassahraun einfaldlega vegna þess að skynsemi mín segir mér að það sé miklu viturlegra að nota þá fjárfestingu sem þegar er til staðar suður á Miðnesheiði. Með auknum og bættum samgöngum, betri bílum, betri vegum, betri tækni og öðru því um líku þá er fjarlægðin á milli Reykjavíkur og Keflavíkur alltaf að styttast. Ég sé ekki rökin í því, hef ekki séð ljósið í þeirri hugmynd að taka upp eða flytja flugvöllinn af Miðnesheiði og suður í Hvassahraun, fyrir utan að ég held að eftir kannski ekki svo langa framtíð, kannski innan 25 ára sem hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi áðan, verði byggðin sennilega komin það langt í þessa áttina að við þyrftum að taka málið upp að nýju.

Það er hins vegar mjög þjóðhagslega hagkvæmt að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni. Í umræðum okkar hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur áðan ræddum við um hvaða álitamál þyrfti að skoða áður en sú ákvörðun væri tekin eða unnið frekar með hana. Það þarf auðvitað að huga vel að því hversu margar ferðir á ári eru sjúkraflug þar sem tíminn skiptir máli. Að öðru leyti finnst mér ábyrgð hins háa Alþingis í þessu máli, þ.e. að tryggja framtíð þessa lands og þjóðar að ungt fólk vilji búa hér, verði að vera mikilvæg rök í því þegar við ræðum staðsetningu þessa flugvallar á einu verðmætasta landi landsins, þó að það sé kannski ekki það sem skipti máli (Forseti hringir.) heldur að við verðum að fara að byggja upp atvinnuvegi sem taka mið (Forseti hringir.) af því að hér er mjög vel menntað fólk sem vill stuðla og standa að nýsköpun hér á landi.