145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[13:51]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Það er alveg rétt, almenningssamgöngur kosta. Útgjöldin eru eitthvað sem ég held að við þurfum ekki alltaf að vera svona rosalega hrædd við. Það kostar líka að reka bíl. Það er mjög dýrt fyrir okkur að vera með mjög marga bíla í umferð. Það er ekki mjög umhverfisvænt og það er bara ekki framtíðin. Það virðist vera að allir séu sammála um það sem hafa verið að pæla í því hvernig við höfum samgöngur í framtíðinni að almenningssamgöngur er í raun og veru eina lausnin þar sem borin er almennileg virðing fyrir bæði fjármunum, heildarhagsmunum og að sjálfsögðu náttúrunni. Mér þykir mjög áhugavert það sem hv. þingmaður nefndi um þessa ungmennaráðstefnu á Hvolsvelli, þar voru ungmenni að biðja um betri almenningssamgöngur. Á móti var sagt: Já, en þetta er svo dýrt. En er það ekki í lagi? Er ekki í lagi að við reynum að tryggja ákveðið frelsi þegar kemur að fólksflutningum milli svæða, að það sé til staðar? Það má alveg kosta. Þegar á heildina er litið snýst þetta líka um að halda byggð á þessum svæðum, ef fólk nennir ekki að búa þarna, sér í lagi ungt fólk, vill ekki búa þarna af því að það er svo erfitt að komast í skólann, erfitt að komast í tómstundir, erfitt að fara og hitta vini sína. Er það að reka almenningssamgöngur ekki hluti af þeim kostnaði sem felst í því að vera í samfélagi? Á það ekki bara að vera hluti af grunnnetinu að vera með almennilegar almenningssamgöngur?

Ég hef aldrei skilið af hverju það eru ekki „míníbússar“ eða eitthvað því um líkt, af hverju þarf þetta alltaf að vera svo fínt hjá okkur og þar af leiðandi svo dýrt? Það eru önnur lönd sem ná að hafa betri almenningssamgöngur en við. Af hverju getum við ekki tekið okkur þau til fyrirmyndar?