145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:00]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég tek undir það, við erum auðvitað lítil þjóð, þess vegna höfum við ekki lagt í þessar miklu og dýru fjárfestingar. Ástæða þess að þetta er komið á töluvert flug núna er nokkrir þættir, loftslagsmálin, gríðarleg aukning ferðamanna o.s.frv. sem gerir okkur kannski kleift að fara út í þetta.

Mig langar aðeins að snúa mér að öðru, en ætla samt að taka undir það sem kom fram áðan um hjólreiða- og göngustíga. Á mínu svæði, milli Eyjafjarðarsveitar og Akureyrar, er verið að tala um að tengja það enn frekar en orðið er með slíkum stígum sem ég held að sé gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir þetta svæði, fyrir utan að gera það líka skemmtilegra til að njóta.

Það er þetta sem skiptir máli þegar við ræðum um búsetutækifæri ungs fólks, eldra fólks, þeirra sem vilja stofna fyrirtæki og allt þetta. Við tölum gjarnan um það úti í hinum dreifðu byggðum að við viljum fá unga fólkið heim úr háskólanámi og ljósleiðaramálin sem við höfum talað svolítið um hérna, tengjast auðvitað samgöngum, þau eru partur af samgöngumálum. Ég hef verið svolítið súr yfir því hvernig ríkisstjórnin hefur ætlað fara fram með það mál. Það á að leggja 500 milljónir á næstu árum til þess að byggja kerfið upp. Miðað við það gæti það tekið 20 ár eða eitthvað með þeim hraða. En hvað finnst þingmanninum um þær aðferðir sem notaðar voru síðast og áttu bara að vera í eitt sinn, þ.e. að etja sveitarfélögunum svolítið saman og vera með sem flestar tengingar í staðinn fyrir að leggja áherslu á brothættar byggðir? Þar er auðvitað hægt að nefna nokkur sveitarfélög þar sem er veruleg hætta á því að mínu mati, ef þau þurfa að bíða lengi, að þau lifi bara ekki af.