145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:05]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni um þetta mál fór ég vandlega yfir nefndarálit okkar í minni hluta samgöngunefndar. Þótt við styðjum í því áliti allar tillögur meiri hluta nefndarinnar og hvetjum eindregið til þess að samgönguáætlun verði samþykkt gagnrýnum við engu að síður mjög harðlega þann skort á langtímasýn sem er við lýði í málaflokknum og hefur verið lengi og birtist í því að framlög til samgöngumála hafa verið skammarlega lítil á undanförnum árum. Það birtist með ýmsum hætti. Við sjáum mikla aukningu í komu ferðamanna og miklu meiri nýtingu á vegunum en áður, en á sama tíma halda menn að sér höndum í framlögum til samgöngumála. Þetta birtist í því að við sjáum líka þá stöðu í almennu viðhaldi. Það má ekki gleyma því að almennt viðhald er ekki einhver lúxus sem við leyfum okkur heldur er almennt viðhald viðhald á fjárfestingum sem þegar hefur verið ráðist í. Það verður, eins og var ágætlega orðað af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni í samtali okkar í gær um þetta mál, skuld við framtíðina vegna þess að þá grotnar vegakerfið niður og við þurfum að ráðast í miklu dýrari endurfjárfestingu ef við sinnum ekki almennu viðhaldi.

Til að fara yfir stöðuna á viðhaldinu eins og hún birtist okkur í nefndinni þá er á þessu ári verið að setja 6 milljarða kr. í viðhald. Síðan er ætlun framkvæmdarvaldsins, þ.e. ráðherrans, samkvæmt samgönguáætlun að setja 7 milljarða á næsta ári og síðan aftur 7 árið 2018. Á sama tíma segir Vegagerðin að hún þurfi 8–9 milljarða eingöngu til þess að halda í horfinu, þ.e. til að verja þær fjárfestingar sem ráðist hefur verið í.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að settir verði 8 milljarðar. Við gagnrýnum það og teljum að það sé ekki nóg. Auðvitað fögnum við því að þar horfa menn til neðri marka þeirrar upphæðar sem Vegagerðin hefur sagst þurfa en við teljum að við þurfum að horfa til efri marka og fara örlítið lengra vegna þess að Vegagerðin sagði okkur líka að ef við vildum taka síðan skrefið áfram og ekki bara halda í horfinu heldur hefja uppfærslu á vegakerfinu, þ.e. ákveðnar breikkanir og hækkanir og mjög víða þarf að horfa til öryggismála, þá þurfi að koma inn 11 milljarðar á ári ef vel á að vera.

Þess vegna leggjum við til í okkar tillögum og mig langar að biðla til ríkisstjórnarinnar og þingmanna stjórnarflokkanna hér inni að koma með okkur í þann leiðangur að setja 9,5 milljarða í viðhaldið vegna þess að á undanförnum árum hefur vegakerfið verið að grotna niður, það þarf að vinna upp og gera úrbætur á þeim fjárfestingum sem menn hafa vanrækt á undanförnum árum og við þurfum að byrja að stíga fyrstu skrefin inn í framtíðina. Það er ekki nein lúxusframtíð heldur bara almenn uppfærsla og aukið öryggi á vegunum. Ég held við séum öll sammála um þetta. Við vitum það alveg að miðað við núverandi stöðu ríkisfjármála þá eru1,5 milljarðar í að verja fyrri fjárfestingar og taka líka fyrstu skrefin í uppfærslu, ef svo má að orði komast, á vegakerfinu fjárfesting sem við munum ekki sjá eftir.

Við höfum á undanförnum áratugum verið að uppskera ríkulega vegna þeirrar framsýni sem hér var á 8. áratugnum þegar menn hófu mjög mikla uppbyggingu á innviðum í hitaveitu og í dreifikerfi rafmagns og hita eftir það. Við höfum sparað gríðarlegan gjaldeyri á því. Í þessu tilfelli erum við ekki að spara gjaldeyri, en við erum hins vegar að auka öryggi og þar með spara fjármuni í heilbrigðiskerfinu. Það er þess vegna sem þetta skiptir svo miklu máli, en ekki bara það heldur líka að það sé framtíðarsýn. Við höfum gagnrýnt það að framtíðarsýn vanti í samgöngumálum. Þá vil ég fagna mjög þeirri samstöðu sem náðst hefur meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Nú er það ekki lengur þannig að við fáum bara umsagnir frá hverju sveitarfélagi fyrir sig heldur koma þau saman með sína sýn á það hvernig þau vilja að höfuðborgarsvæðið þróist. Mér finnst það til mikillar fyrirmyndar. Það er mjög skýr framtíðarsýn í þeim óskum sem þar koma fram, t.d. varðandi almenningssamgöngur, hraðvagna, hugmynd um borgarlínu sem innifelur hraðvagna og hugsanlega léttlestakerfi. Það er óskað eftir því að ríkið komi í auknum mæli að því að gera á þessu fýsileikaathuganir, athuganir á staðsetningum o.s.frv. Sjálf bý ég í Garðabæ og sit löngum stundum í bílnum á morgnana og seinni partinn. Af þessu hlýst bæði gríðarleg mengun og aukið álag á íbúana sem eru að flýta sér að sækja börn í skóla eða koma þeim í frístundir o.s.frv., þannig að það snýst líka um að auka lífsgæði fólks sem hér býr að horfa til léttlesta eða hraðvagna eða annars slíks til þess að minnka álagið á götunum.

Það sem mér finnst líka áhugavert að fylgjast með í borginni er hvernig menn eru farnir að horfa á skipulag með allt öðrum hætti. Þetta á við þvert á flokka á höfuðborgarsvæðinu. Menn eru farnir að horfa meira á það að þétta byggðina þannig að fólk geti búið í nálægð við vinnustaðinn þannig að menn séu með svolítið blandaðri byggðakjarna. Þetta er eitthvað sem ég tel að stjórnvöld eigi að reyna að styðja við vegna þess að lífsgæði okkar sem hér búum mundu aukast til muna ef aðgengi okkar að þjónustu og störfum og öðru væri auðveldara en það er núna. Þessu er auðvitað misskipt milli íbúa höfuðborgarsvæðisins en ég held að það sé ekkert skárra að koma ofan úr Grafarholti eða úr Hafnarfirði, hið sama á náttúrlega við úr Hafnarfirði og í gegnum Garðabæinn og eins þá sem koma af Suðurnesjunum, þeir komast mjög greiðlega frá Suðurnesjunum, en svo stoppar allt inni í Hafnarfirði og menn lötra þetta inn í borg. Þetta snýst um að horfa til þess hvað fólkið þarf á að halda. Það er ekki einhver aðför að einkabílnum. Þetta snýst bara um að auka lífsgæði þegar menn tala um þetta.

Mér finnst gott og gaman að sjá höfuðborgarsvæðið koma saman í þessu vegna þess að þar er við stjórnvölinn fólk úr öllum flokkum. Ég vona að ríkið taki höndum saman við þessi sveitarfélög um að gera þetta að veruleika, því að þetta er líka spurning um bætt aðgengi þeirra sem búa í ytri kraganum í kringum höfuðborgarsvæðið sem er Akranes, Selfoss, Hveragerði og bæirnir á Suðurnesjum, þar býr heilmikið af fólki sem starfar hér á höfuðborgarsvæðinu.

Talandi um framtíðarsýn, þá langar mig að nefna að mér finnst vanta mjög að við horfum til lengri tíma hvernig við viljum sjá byggðir í landinu þróast. Ég sjálf hef engan áhuga á því að búa í borgarsamfélagi sem við erum að verða mjög hratt. Mér finnst vanta stefnumörkun í því að við tökum ákvarðanir um hvernig og hvar við ætlum hreinlega að styðja við eflingu ákveðinna byggðakjarna um landið. Hvernig ætlum við að styðja við og tengja betur saman byggðirnar á Vestfjörðum? Hvernig ætlum við styðja við og tengja betur saman byggðirnar fyrir austan þar sem menn hafa verið að sameina sveitarfélög og gert það mjög vel, tekið jafnvel höndum saman um að setja á laggirnar eina þjónustustofnun fyrir svæði sem er Austurbrú o.s.frv.? Við svörum þessari þróun ekki nægjanlega hratt með stuðningi þegar kemur að samgöngumálum. Í staðinn verður umræðan alltaf þannig að við förum að takast á um einstaka framkvæmdir. Eru ekki allir orðnir hundleiðir á þessu? Af hverju teiknum við ekki upp framtíðarsýn þar sem við tökum bara pólitískar ákvarðanir: hér á að byggja upp, hér á að byggja upp og styrkja við byggðakjarna, svo eiga allar okkar ákvarðanir að byggja á því að svo geti orðið í samgöngumálum og öllu mögulegu.

Ég tek sem dæmi umræðuna þegar við förum að takast á um gangagerð. Þá heyri ég vini mína hér í höfuðborginni segja: Þetta er nú bara eitthvert dekur við örfáar hræður úti á landsbyggðinni. Svona er talað. Við megum ekki halda svona áfram. Það eru einhvern veginn alltaf þessi átök milli landsbyggðar og höfuðborgar, eins og það skipti ekki máli fyrir okkur sem búum á höfuðborgarsvæðinu hvernig samgöngur eru úti á landi. Það skiptir okkur gríðarlega miklu máli vegna þess að þetta snýst um það hvernig þróun byggðar í landinu verður og þar með hvernig samfélag Ísland er sem ein heild.

Við vitum það að konurnar fara á undan inn á höfuðborgarsvæðið. Við höfum séð mjög áhugaverðan vísi eða rannsókn sem ég hef áður nefnt hérna og sumir halda kannski að ég sé með á heilanum, en hún opnaði augu mín fyrir því hvaða áhrif þetta getur haft. Það er frumvísir að niðurstöðu rannsóknar sem gerð hefur verið við Háskólann á Akureyri, Andrea Hjálmsdóttir og fleiri, þar sem fram kemur að staða kvenna á svæðinu í kringum Héðinsfjarðargöngin hefur batnað til muna eftir að göngin voru tekin í gagnið. Mér finnst þetta stórmerkilegt. Horfum frekar á þessa stöðu. Rannsökum þetta betur. Getur verið að í staðinn fyrir, og hér talar gamall byggðamálaráðherra, alls konar svona smáverkefni þar sem við reynum að örva innri vöxt og setjum hundruð milljóna í, þegar kemur að byggðamálum og við köllum byggðaáætlun, ætti að tengja samgöngumálin inn í byggðaáætlunina ef það er raunverulega þannig að staða þess hóps sem er veikari fyrir því að flytja suður styrkist heima fyrir ef menn bæta samgöngurnar?

Mér finnst þurfa að taka þessa umræðu upp úr skotgröfum landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Það skiptir mig máli hvernig landið allt þróast, hvernig byggð í landinu þróast. Við þurfum að horfa til þess að stundum þarf að grípa til stórra framkvæmda og aðgerða til þess að búa til einhverja framtíð. Það er ekki bara verið að bregðast við heimtufrekju tíu manna í einhverju krummaskuði. Við erum að horfa til framtíðar byggðaþróunar.

Nú er tími minn að verða búinn og mér er dálítið mikið niðri fyrir vegna þess að þessi málaflokkur, ég er að koma að honum í fyrsta skipti á kjörtímabilinu af einhverju viti, hefur opnað augu mín fyrir gríðarlega mörgu. Samfélagið byggist svo mikið upp á því hvað við erum að gera hér, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Við eigum svo mikið undir í samgöngumálunum. Þetta er kostnaðarsamur málaflokkur og þess vegna skiptir svo miklu máli að við reynum að búa til hlutlæga mælikvarða á það hvernig við ræðum þetta. Kannski eigum við að reyna að koma okkur upp úr þeim hjólförum og þeirri ásýnd sem hefur verið á umræðu um samgöngumál, að þetta séu átök milli landshluta um einstaka framkvæmdir, þetta séu átök milli Vestfjarða, Austfjarða eða höfuðborgar, landsbyggðar eða hvað það er um einstaka framkvæmdir og fjármuni, og menn fari frekar að setja niður hlutlæga mælikvarða og segja bara: Hér er einn listi þar sem við erum búin að forgangsraða út frá framkvæmdum sem snúa að öryggismálum. Tökum sem dæmi það sem ég nefndi áðan í andsvari, leiðin frá Fitjum út að flugvelli, það er eitt sem hefði átt að vera á slíkum lista. Það sem ratar á slíkan lista fer svo bara í eitthvert ferli þar sem er byggt á álagi, byggt á öllum þeim breytum sem skipta máli hvað öryggi varðar. Síðan erum við búin að forgangsraða jarðgöngum og það er til jarðgangaáætlun, en við ræðum hana aldrei þannig. Þá er búið að búa hana til og þar er stefnumörkun að baki sem snýr að þeirri byggðaþróun sem ég nefndi áðan, einhverri langtímasýn í byggðaþróun. Síðan eru menn með framkvæmdir sem þarf að ráðast í til að (Forseti hringir.) styðja við atvinnuþróun. Ef við hefðum haft einhverja slíka hlutlæga mælikvarða fyrir atvinnuþróun þá væri löngu búið að klára Dettifossveg, svo eitt dæmi sé tekið.