145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:29]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Ein af breytingartillögum okkar í minni hlutanum er einmitt að fara í framkvæmdir á þeim vegi sem rætt var um, á veginum að Látrabjargi. Ég vona að ríkisstjórnarflokkarnir, þingmenn stjórnarflokkanna sem hér eru, samþykki þann hluta okkar tillagna.

Talandi um viðhald vega og talandi um Vestfirðina þá er mér það mjög minnisstætt þegar ég ók frá Stykkishólmi til Patreksfjarðar. Þegar við vorum farin að keyra um alla þessa hálsa og hossast um þessa vegi — maður hefði eiginlega þurft nýrnabelti eins og þeir eru með á vinnuvélunum. Tvíburarnir mínir voru þá eins og hálfs árs og ég hugsaði með sjálfri mér: Ég gæti ekki hugsað mér að aka þennan veg með börnin mín. Þetta er langur vegur, það tekur tíma að keyra þetta. Manni líður ekkert sérstaklega vel í bílnum, í hosseríinu og beygjunum og snúningunum. Ég er ekki viss um að ég mundi treysta mér til að keyra þarna með ung börn. Nógu erfitt er að keyra stutta kafla á malarvegum og sveitavegum á leiðinni upp að sumarbústað með börnin. Ég tek hatt minn ofan fyrir ungu barnafólki sem býr á sunnanverðum Vestfjörðum við þessar aðstæður, svo að það sé nú bara sagt.

Ég held að við þurfum að horfa til þess í byggðamálum að þetta fari að verða aðalfókusinn þegar kemur að byggðamálum, þ.e. samgöngur og fjarskipti. Við þurfum að hætta að kalla áætlanir, með verkefnum sem öll eru ágæt, „Byggðaáætlunina“. Ég held að við séum að gera mjög mikil mistök í byggðamálum með því að horfa ekki miklu víðar á málaflokkinn og setja stóru framkvæmdirnar þar inn. Kannski mundi skilningurinn á verkefnunum líka aukast ef við settum þau í samfélagslegt samhengi en ekki bara í átakafarveg milli okkar hér inni eins og gerist því miður allt of oft.