145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:34]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála þingmanninum í því að þetta er kannski útópískt að sjá þetta fyrir sér, en auðvitað er tvöföld akstursstefna ekki útópísk. En að sjá fyrir sér svona lestarkerfi á milli, ég ætla að vona að loftslagsbreytingarnar leiði okkur ekki í þá átt, en það er kannski eitt af því sem maður hefur áhyggjur af varðandi alla þessa umferð á þjóðvegum landsins. Það er kannski ekki í anda þess sem við þurfum að fara að huga að því að við erum einmitt að verða töluvert mikil stórborg, eins og þingmaðurinn nefndi, þ.e. teppuna hér á morgnana. Ég velti því upp í matsalnum í hádeginu í dag að þau þrjú ár sem ég er búin að sitja á þingi — mér finnst gríðarleg breyting á þessu hausti, bara frá því ég kom hingað árið 2013. Mér finnst umferðarþunginn miklu meiri, og þetta er auðvitað í andstöðu við það sem við þurfum að grípa til. Ef við ætlum einhvern veginn að reyna að uppfylla þessi markmið þá verðum við að breyta til. Það er ekki nóg að hugsa um að rafvæða og eitthvað slíkt, heldur þurfum við líka að huga að almennilegum og alvörualmenningssamgöngum sem eru þó að einhverju leyti fólgnar í einhvers konar lestarfyrirkomulagi, held ég.

Mig langar aðeins til þess að velta því líka upp af því að við erum báðar áhugakonur um jarðgöng og þá rannsókn sem þingmaðurinn vitnaði í sem einmitt kom svo mikið á óvart. Ég bý í sveitarfélagi sem hefur fern jarðgöng og vantar ein enn og hæstv. ráðherra sem situr hér á bak við mig er einn af flutningsmönnum um að það verði kannað ásamt mér og fleirum. Af því að í umræðunni var nefnt dekur þá eru Færeyingar að bora út og suður og tengja byggðirnar sínar þó að 75 kílómetrar séu á milli, þannig að þeir horfa ekki í kílómetrana heldur bara að tengja byggðirnar. Þeir horfa ekki heldur í íbúafjöldann heldur að hægt sé að hafa svæðin í byggð. Ég held að það sé (Forseti hringir.) eitt af því sem er mikilvægt og akkúrat þessi punktur sem þingmaðurinn kom inn á hvað þetta breytti miklu fyrir konur. Það skiptir máli á þessum jaðarsvæðum.