145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega hægt að vera alinn upp í Kópavogi og búa í Garðabæ, fædd í Reykjavík og vera áhugamanneskja um jarðgöng um landið. Ég er það. Ástæðan er sú að ég tel að þetta sé hluti af byggðaþróun og ég tel að umræðan um einstaka jarðgangaframkvæmdir fari stundum út í ógöngur af því að við setjum þær ekki í samfélagslegt samhengi og af því að við tengjum þær ekki framtíðarsýn. Hvað erum við að gera með þessum göngum? Fólkið á staðnum sem upplifir þetta á hverjum degi skilur það mjög vel, en við hin þurfum kannski að sjá betur hið stóra samfélagslega samhengi. Þar kannski feilum við stundum sem tölum fyrir þeim í þinginu.

Ég er líka meðflutningsmaður á þessari tillögu, þannig að það sé bara sagt. Mér finnst við þurfa einhvern veginn að komast upp úr þessum skotgröfum þegar kemur að umræðu um þessi mál.

Síðan aftur talandi um höfuðborgarsvæðið þá er þetta svo skrýtið að ég flyt í fyrravetur, ég flyt úr Kópavoginum og yfir í Garðabæinn. Ég flyt ekki um langan spotta, en bara það að fara yfir til Garðabæjar og taka þaðan Reykjavíkurveginn í bæinn hefur lengt tímann. Milli eitt og tvö á daginn eru það kannski tvær og hálf mínúta, en á morgnana er það aukakorter, tuttugu mínútur, bara sá bútur. Það er ofboðsleg teppa á höfuðborgarsvæðinu á löngum tímum. Þetta er ekki bara eitthvert korter á morgnana. Þetta er frá því að klukkuna vantar korter í átta til níu á morgnana og þetta er klukkutími eða einn og hálfur seinni partinn. Bara sá tími hefur rosaleg áhrif á lífsgæði höfuðborgarbúa og þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu og svo aftur eins og ég lýsti áðan, Suðurnesin, (Forseti hringir.) Akranes og Selfoss sem eru að koma annars staðar inn. Þannig að við verðum (Forseti hringir.) líka að fara að huga að þessu hvort sem við búum á höfuðborgarsvæðinu eða utan þess.