145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér samgönguáætlun. Samgöngumál eru okkur landsbyggðarfólki hugleikin. Sem betur fer erum við að fá fleiri og fleiri liðsmenn í okkar hóp, þingmenn hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er gott mál því að ekki veitir af. Samgöngumál hafa því miður setið á hakanum allt of lengi og verið okkur til skammar. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa ráðið hér ríkjum í áratugi og eru við stjórnvölinn núna og þeirra er skömmin hvernig samgöngumál eru hér á 21. öldinni vítt og breitt um landið. Nú korteri fyrir kosningar er dreginn fram kosningavíxill úr umhverfis- og samgöngunefnd. Gott og vel, við fögnum því sem viljum að vegaframkvæmdum og samgönguframkvæmdum heilt yfir sé gert hátt undir höfði. Ég er auðvitað ánægð með það. Minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar bætti um betur og ég styð tillögur hans heils hugar. Það er auðvitað ansi seint í rassinn gripið þar sem þessi ríkisstjórn hefur haft þrjú ár til að sýna vilja sinn í verki og komið sáralitlu í framkvæmd. Nú er þessum breytingartillögum þar sem talað er um aukið fé til samgöngumála, viðhalds vega, héraðs- og tengivega og nýframkvæmda, vísað til næstu ríkisstjórnar og næstu fjárlaga. Auðvitað vonar maður að sú ríkisstjórn sem kemur hér til valda eftir þessar kosningar hafi dug í sér til að gera samgöngumálum hátt undir höfði.

Ástand vegakerfisins brennur auðvitað á okkur og hvernig er að myljast undan því. Vegamálastjóri og forsvarsmenn Vegagerðarinnar kvarta sáran undan því að hafa ekki nægt fjármagn til þess að sinna lágmarksskyldum sínum. Það þekkja það örugglega margir þingmenn að hafa fengið hringingar til sín þar sem kvartað er yfir lélegum vegum. Ég fékk símtal í morgun frá ungum bónda vestur á fjörðum þar sem hann sagði að hann væri að gefast upp á því að þurfa að keyra fjóra, fimm kílómetra fram og til baka á hverjum degi með börnin sín í skóla þar sem vegurinn væri illfær vegna þess að viðhald skorti, ræsin ónýt og grindarhlið léleg, skarð í vegum og ekki hefði verið heflað eða borið ofan í veginn að neinu gagni mjög lengi. Það er auðvitað saga sem menn geta sagt vítt og breitt um landið, þeir sem búa við malarvegi og héraðs- og tengivegi og það endurspeglar hvernig ástandið er orðið. Fólk, sem þarf að fara slíka vegi dagsdaglega til þess að sækja vinnu, fara með börnin sín í skóla og sækja þjónustu til stærri staða á sínu svæði, er að gefast upp á því að búa við slíkar samgöngur. Það er auðvitað ekki boðlegt á Íslandi á 21. öldinni.

Vegagerðin horfir auðvitað til þess að verið sé að lofa fram í tímann með þeim breytingartillögum sem nú liggja fyrir og vonast til þess að geta farið að undirbúa sig fyrir næsta sumar, að hún hafi þá úr einhverjum fjármunum að spila til þess að sinna sínu hlutverki. Vegagerðinni er auðvitað vorkunn að þurfa að vera með þetta þjónustuhlutverk á sínum herðum en það er vanfjármagnað.

Ríkissjóður stendur vel í dag og ríkisstjórnin hefði auðvitað átt að gera miklu betur en hún hefur gert alveg frá fyrsta ári sínu, en það hefur allt verið í mýflugumynd. Við þekkjum það líka að þegar þensla eykst hefur það oftar en ekki verið notað sem afsökun fyrir því að ekki sé hægt að fara í vegaframkvæmdir af hálfu ríkisins vegna þess að nú sé þensluástand. Það er kannski á þeim svæðum sem engin þensla er og vegakerfið er mjög slæmt. Þá hefur ríkið haldið að sér höndum og ekki fjármagnað framkvæmdir eins og þörf hefur verið fyrir.

Ég ætla bara rétt að vona að það verði ekki notað sem afsökun á næsta kjörtímabili, hverjir svo sem sitja þá við völd, að það sé svo mikil „þensla“ á höfuðborgarsvæðinu að hið opinbera verði að halda að sér höndum og vilji ekki auka þenslu með því að setja of mikið fé í viðhald og framkvæmdir. Sú röksemdafærsla á ekki við. Menn hrósa sér af góðri stöðu ríkissjóðs í dag. Sú staða hefur auðvitað verið að byggjast upp og vaxa vegna þess að grunnurinn var lagður á sínum tíma hjá síðustu ríkisstjórn sem vann að því að koma ríkissjóði og efnahag landsins aftur á réttan kjöl. Hagvöxtur hófst hér árið 2010. En innviðauppbygging í landinu er í skötulíki, þar með talið vegakerfið, ljósleiðaravæðing, flugvellirnir okkar, hafnirnar okkar og fjarskipti vítt og breitt um landið. Svo mætti áfram telja; uppbygging í kringum fjölförnustu ferðamannastaðina og þá ferðamannastaði sem menn vilja fara á eins og Látrabjarg, sem fjallað var um í ræðu áðan. Vegurinn þangað er stórhættulegur, en þangað fer fjöldinn allur af ferðamönnum því að það er auðvitað mjög merkilegt og gaman að horfa á það fallega náttúrusvæði. En við vitum aldrei hvenær alvarleg slys geta orðið á þeirri leið miðað við hvernig vegurinn er.

Ferðaþjónustan skilar í dag gífurlegum fjármunum inn í samfélagið. Gjaldeyristekjur hennar eru langt yfir 200 milljarðar á ári og greiðslur í formi skatta til ríkisins eru eitthvað um 70 milljarðar. Ríkisstjórnin hefur valið að hlúa ekki að innviðauppbyggingu og uppbyggingu samgangna svo það lendir á næstu ríkisstjórn að gera stórátak í þeim málaflokki, því að þar er uppsafnaður vandi. Ef ég dreg aftur saman það sem ég sagði þá stæra menn sig af góðri stöðu ríkissjóðs en í kredit-dálknum í því bókhaldi er uppsafnaður vandi á svo mörgum sviðum í samgöngum, heilbrigðismálum, menntamálum, og svo mætti lengi telja.

Hægt er að sýna góða stöðu í heimilisbókhaldinu ef maður endurnýjar aldrei neitt hjá sér og lætur viðhaldsþröfina safnast upp á heimilinu, þá getur maður kannski látið heimilisbókhaldið líta betur út til skamms tíma. En það kemur að því að maður þarf að leggja til fjármuni í eðlilegt viðhald, sem hefði betur verið gert jafnt og þétt, eins og þessi ríkisstjórn hefði átt að hafa manndóm í sér til þess að gera að horfa til þess að leggja ákveðið hlutfall af vergri landsframleiðslu í uppbyggingu samgangna. Það hlutfall var um 2,5% 2008, en er núna bara 1,1% af vergri landsframleiðslu þegar þjóðarhagur er að vænkast og staða ríkissjóðs þetta góð. Það segir allt sem segja þarf um að menn hafa (Forseti hringir.) ekki skilað því sem skila á til innviðauppbyggingar þau ár sem þessi ríkisstjórn hefur verið við völd.