145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er góð spurning og ég sem íbúi Vestfjarða í rúmlega 50 ár hef oft spurt mig þeirrar spurningar sjálf. Hvað veldur þessu? Í öllu eðlilegu hefði maður nú haldið að ef maður sæti í stól samgönguráðherra og hefði eitthvað með þetta að gera mundi forgangsröðunin vera sú að ljúka því að leggja bundið slitlag á vegi landsins. Það væri forgangsröðunin. En forgangsröðunin hefur bara ekki verið sú að það fólk sem býr í landinu, hvort sem það er til sjávar eða sveita, fái bundið slitlag á sína vegi. Auðvitað ættum við fyrir löngu að vera komin þangað. Það er enginn að tala um tvíbreiða vegi á alla sveitabæi eða eitthvað því um líkt, en að ekki sé komið bundið slitlag til fólks á Íslandi árið 2016 er auðvitað með ólíkindum, og eins að þessar þekktu ferðamannaleiðir þar sem mikil umferð er yfir sumartímann séu ekki settar í forgang. En það er nú bara þannig að hingað á hið háa Alþingi veljast einstaklingar sem þrýsta oftar en ekki á að taka ýmis verkefni fram yfir önnur og þá hefur það orðið hlutskipti Vestfjarða að lenda undir. Það er kannski ekki fallegt að segja að við höfum ekki átt nógu sterka forsvarsmenn hér á þingi í gegnum árin, en þeir hafa stundum komið úr öðrum landshlutum en Vestfjörðum og þrýst á um jarðgöng í sinni heimabyggð. En það er auðvitað ekki mikill metnaður að horfa ekki til þess að það sé a.m.k. forgangsraðað í þágu þess að setja bundið slitlag á vegi landsins.