145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég tel mjög brýnt að hafa virka jarðgangaáætlun til langs tíma þar sem landsmenn sameinast um að forgangsraða. Ég tel líka að við séum komin á þann stað að gera verði sérstakt átak í að ljúka jarðgangaframkvæmdum sem brennur á. Við þekkjum báðar umræðuna um Álftafjarðargöng og við þekkjum umræðuna hjá Austfirðingum um Seyðisfjarðargöng. Ég tel að bæði þessi svæði eigi að fara í flýtimeðferð, að við séum þar stödd að gera verði átak í því, og taka það fram yfir margt annað, að tryggja samgöngur þar sem þær eru hættulegar.

Ef við tölum aðeins um Álftafjarðargöngin þá hefur verið sagt að nú séu komnar á góðar samgöngur milli Ísafjarðar og Reykjavíkur. Gott og vel, en eru þær öruggar þegar betur er að gætt? Hve oft er Súðavíkurhlíðin lokuð vegna snjóflóðahættu, aurskriðna og annars því um líks? Þó að orðið sé greiðfært í Ísafjarðardjúpi, frá Reykjavík til Ísafjarðar, er Súðavíkurhlíð hindrun sem er stórhættuleg, bæði mönnum sem vinna þar við mokstur og þeim sem fara um hlíðina og vita aldrei hvenær hættan verður að veruleika. Þar er þetta spurning um öryggismál og hvenær slysin verða.