145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stutta svarið við þeirri spurningu er einfaldlega: Nei, ég held að það sé engin ástæða til þess. Það er rétt að uppi voru hugmyndir um bæði botngöng og jarðgöng undir Elliðaárvoginn til að mæta sjónarmiðum Vegagerðarinnar en líka sjónarmiðum borgarstjórnar Reykjavíkur á þeim tíma. Það var á þeim tíma talið of kostnaðarsamt. Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvers vegna það virðist aldrei hafa komið til álita að gera göng á höfuðborgarsvæðinu þar sem meiri hluti landsmanna býr og fer um á hverjum degi. Ég held að við höfum í raun og veru allt of lítið horft til slíkra lausna og sitjum fyrir vikið uppi með vandamál vegna umferðar, svo sem vandamálin sem eru á Miklubraut við Lönguhlíð og þar um þar sem borgaryfirvöld hafa líka lengi barist fyrir því að fá hluta þjóðvegarins sem þar liggur í gegn lagðan í stokk þannig að það sé betur búandi þarna beggja vegna brautarinnar. Ég hef aldrei skilið hvers vegna það má ræða um jarðgöng í öllum landshlutum öðrum en Reykjavík.