145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni hvað varðar gjaldtökuna, við höfum verið allt of feimin í þeim efnum og hvað ferðamannastaðina áhrærir m.a. verið allt of feimin við að leggja gjöld einfaldlega á bíla. Ég nefni þar sérstaklega bílastæðagjöld. Ekkert í mínum huga mælir gegn því að menn greiði fyrir það að leggja á bílastæðum við vinsæla ferðamannastaði rétt eins og menn greiða fyrir að leggja bílum sínum í miðborg Reykjavíkur. Það getur til að mynda verið leið sem nýtist við að kosta endurbætur við Látrabjarg ef menn skortir einhverja tekjustofna til að mæta því og ekkert nema sjálfsagt að þeir sem þangað sækja þurfi að greiða fyrir það að láta bílinn sinn standa þar þann tíma sem þeir eru þar og það renni upp í kostnað við að gera endurbætur á svæðinu fremur en að dragi úr þeim fjármunum (Forseti hringir.) sem við höfum í ríkissjóði til að kosta heilbrigðisþjónustu eða aðra velferðarþætti fyrir Íslendinga.