145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að engum blöðum sé um það að fletta að það er auðvitað mannlíf sem gerir samfélag eftirsóknarvert. Vandi okkar hér hefur verið sá að mannlífinu hefur verið allt of mikið dreift. Ef Reykjavík væri eins og evrópsk borg, höfuðborgarsvæðið, þá væri öll byggð hérna megin við Fossvogsdalinn og hérna megin við Elliðaárnar, og allt það fólk sem býr á öllu hinu víðfeðma höfuðborgarsvæði gæti einfaldlega búið á Nesinu, það hefði gríðarleg áhrif á ferðalengd, á tíma sem fólk þarf að verja til ýmissa hluta og á möguleika í að efla almenningssamgöngur og margvísleg úrræði. Þetta er stutta svarið. Ég held hins vegar að tækniþróunin muni hafa mikil áhrif á þróun borgarumhverfisins á næstu árum og skapa okkur líka möguleika á nýjum lausnum.