145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:02]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta fyrirspurn og athugasemd. Svarið við þessu er einfaldlega þetta: Nú eigum við ágætar áætlanir og stefnumótun þar sem þjónustuþörf svæða hefur verið reiknuð út, búsetuþróun, mannfjöldaþróun, möguleikar til atvinnuuppbyggingar; þar sem búið er að reikna út hvað af hlytist ef hægt væri að sameina svæði og bæta samgöngur á milli, auka samlegðaráhrif o.s.frv. Vandinn er hins vegar sá að það er ekki farið eftir þessu. Ég tel að til dæmis hefði mátt, bæði í þessari samgönguáætlun og þeirri síðustu, tengja mun betur við sóknaráætlanir landshlutanna þar sem sveitarfélögin voru með í stefnumótuninni, þar sem fólkið sem býr í landinu gat sjálft komið sjónarmiðum sínum á framfæri um það hvar eldarnir brynnu heitast og hvar þörfin væri mest.

Þegar ég er að tala um fagleg vinnubrögð á ég ekki við að einhverjir embættismenn reikni þetta kalt út og taki ákvarðanir. Ég á við það að líta þurfi til samfélagslegra sjónarmiða því að það er auðvitað það sem málið snýst um að gera þetta land byggilegt og að fólk geti óháð búsetu, óháð því hvar það fæðist og elst upp, átt möguleika á samskiptum við fólk í öðrum landshlutum, möguleika á að lifa og dafna í samfélagi þar sem atvinnulíf getur byggst upp og þróast; að það geti sótt sér nám, geti sótt sér þjónustu án þess að vera ofurselt þeim átthagafjötrum sem víða eru við lýði vegna bágs ástands í samgöngumálum eins og sums staðar á Vestfjörðum.