145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:07]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að við skulum ekki vanmeta hina faglegu aðila, ég held að við séum á einu máli um það. En gleymum ekki Vegagerðinni sem er faglegur aðili þar sem er samankomin gríðarlega mikil þekking og yfirsýn, heildarsýn. Það hefur nú kannski verið vandinn í samgöngumálum okkar lengi að allt of lítið hefur verið hlustað á Vegagerðina og hún hefur ekki fengið að koma þekkingu sinni og stefnumiðum nægilega vel á framfæri við stjórnmálamenn sem oft og tíðum eru tækifærissinnaðir. Það hefur líka verið vandi.

Varðandi loftslagsmálin þá er það hárrétt að það er aðkallandi úrlausnarefni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Uppbygging samgöngukerfisins er lykilþáttur í því vegna þess að mikill hluti losunar er úrgangur frá bílum, mengun frá bílum. Þá skiptir máli hvernig samgöngumannvirki eru hönnuð, hvort þau eru hönnuð með tilliti til þess að það krefjist lítillar mengunar að nýta þau og hvort verið er að stefna helstu samgönguleiðunum inn á vegina frekar en í flugið, lestarsamgöngur, sporvagna. Það eru ýmsar leiðir til að draga úr mengun. Ég hef satt að segja haft verulegar áhyggjur af þessari þróun hér á Íslandi síðustu árin, hvernig þungi umferðarinnar hefur lagst á vegakerfið, þetta tvístraða vegakerfi okkar. Þungaflutningar, uppbygging atvinnulífsins, t.d. sú viðleitni í sjávarútveginum að landa fiski og aka svo með hann langar vegalengdir til vinnslu o.s.frv. — Uppbygging samgöngukerfis krefst heildarsýnar og heildarhugsunar sem við mættum gera meira af því að brúka.