145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:11]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Var það ekki Páll postuli sem sagði: „Hið góða sem ég vil gjöra, gjöri ég ekki og það illa sem ég vil ekki gjöra, gjöri ég.“ Það virðist nú bara vera í mannlegu eðli að sjá hvað gera þarf en geta svo ekki gert það.

Ég kenni að hluta til um slælegri pólitískri menningu á Íslandi. Hún birtist okkur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis fyrir ekki mörgum árum, ekki síst þremur hugtökum yfir meinsemdir sem má yfirfæra á alla okkar ákvarðanatöku. Það er agaleysi, það er ákvarðanaflótti og það er frekja. Þetta eru meinsemdirnar sem við þurfum að yfirstíga sem manneskjur og sem stjórnmálamenn til þess að geta tekið réttar og eðlilegar ákvarðanir með almannahagsmuni að leiðarljósi og samfélagsleg gildi fyrir augum.